Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, og flestir úr ríkisstjórn landsins munu taka þátt í göngu sem hefur opið og umburðarlynt Þýskaland að leiðarljósi. Gangan, sem fer fram í Berlín á morgun, er skipulögð af leiðtogum múslíma í landinu í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Frakklandi.
Merkel tók þátt í samstöðugöngunni í París í gær líkt og allflestir þjóðarleiðtogar Evrópu. Að sögn talsmanns þýsku ríkisstjórnarinnar, Georgs Streiters, mun aðstoðarkanslari Þýskalands, Sigmar Gabriel, einnig taka þátt í göngunni við Brandenborgarhliðið á morgun sem og utanríkisráðherrann, Frank-Walter Steinmeier, og fleiri ráðherrar.
Leiðtogar sífellt stækkandi samtaka í Þýskalandi, „Evrópskir föðurlandsvinir gegn íslamsvæðingu Vesturlanda“ eða PEGIDA, hafa boðað til göngu í kvöld í Dresden, höfuðborg Saxlands.
Þema göngunnar nú er fordæming á árásunum í Frakklandi. Hafa leiðtogar samtakanna hvatt göngumenn til þess að vera með svart armband og eins verður einnar mínútu þögn í minningu fórnarlamba hryðjuverkanna í París. Fastlega er gert ráð fyrir að enn fleiri taki þátt í göngunni nú en fyrir viku er 18 þúsund mættu. Ólíklegt þykir hins vegar að göngumenn verði jafnmargir í Dresden nú og á laugardag er 35 þúsund tóku þátt í göngu gegn PEGIDA.