Mótmæltu íslam í Dresden

Um 25.000 manns tóku þátt í mótmælum gegn íslam í þýsku borginni Dresden í dag, en boðað var til mótmælanna í tengslum við hryðjuverkaárásirnar í París í síðustu viku.

Þýskir stjórnmálamenn hvöttu fólk til að taka ekki þátt í mótmælunum sem samtökin PEGIDA skipulögðu, en nafn samtakanna er skammstöfun á Patriotische Europäer gegen die Islamisierung des Abendlandes. Útleggja má nafnið á íslensku sem „Þjóðernissinnaðir Evrópubúar gegn íslamsvæðingu vestursins“.

Tugþúsundir tóku þátt í öðrum fjöldafundum sem voru haldnir víða í Þýskalandi þar sem boðskap PEGIDA var mótmælt, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur greint frá því að hún muni taka þátt í mótmælum sem samtök múslima standa fyrir í Berlín á morgun. 

Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, er á meðal þeirra stjórnmálaleiðtoga sem hvöttu skipuleggjendur Pegida-göngunnar í Dresden til að misnota ekki árásirnar í Parísar með þessum hætti. Skipuleggjendurnir létu varnaðarorðin hins vegar sem vind um eyru þjóta. 

Þátttakendur héldu á spjöldum þar sem þeir lýstu yfir samstöðu með þeim sem létust og þá var einnar mínútu þögn til að minnast þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert