Gera gys að morðingjunum

Nýjasta tölublað Charlie Hebdo kemur út á morgun.
Nýjasta tölublað Charlie Hebdo kemur út á morgun. AFP

Ritstjórn franska skopblaðsins Charlie Hebdo gerir gys að íslömsku byssumönnunum sem myrtu samstarfsfélaga þeirra í París í síðustu viku í blaði sem kemur út á morgun - viku eftir ódæðisverkin.

Alls hafa þrjár milljónir eintaka verið prentaðar í stað 60.000 blaða líkt og vanalega. AFP-fréttastofan hefur blaðið undir höndum og segir að starfsmenn Charlie Hebdo vilji sýna í verki að það verði ekki hægt að þagga niður í þeim. 

Eins og fram hefur komið mun teikning af Múhameð spámanni prýða forsíðu blaðsins. Hann heldur á skilti sem á stendur: „Ég er Charlie Hebdo“ undir yfirskriftinni: „Allt er fyrirgefið“. Blaðið er 15 síður og þar verður að finna greinar og skopmyndir, m.a. frá þeim sem létust í árásinni í síðustu viku.

Ein skopmyndin sýnir mannmergð við Sigurbogann í París, en myndin er vísun í samstöðufundinn sem fór fram um sl. helgi. Við myndina stendur: „Fleiri mættu vegna Charlie en í messu.“ Um ein og hálf milljón safnaðist saman á götum Parísarborgar til að minnast þeirra sem létust.  

Gerard Biard skrifar leiðara en þar segir m.a.: „Við hlógum mest að því að kirkjuklukkur Notre Dame voru látnar hringja okkur til heiðurs.“ 

Biard skrifar ennfremur að hann og ritstjórn blaðsins vilji þakka öllum þeim sem „standa í raun og veru með okkur, sem eru í einlægni Charlie“. 

Ein skopmyndin gerir grín að byssumönnum sem myrtu starfsmenn Charlie Hebdo. Hún sýnir þá í paradís spyrja: „Hvar eru allar hreinu meyjarnar?“ Svar berst úr skýjunum: „Með starfsmönnum Charlie, aumingjarnir ykkar!“

Upplag blaðsins eru þrjár milljónir eintaka.
Upplag blaðsins eru þrjár milljónir eintaka. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert