„Við erum öll Þýskaland“

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Joachim Gauck, forseti Þýskalands, voru viðstödd athöfn í Berlín í kvöld sem samtök múslíma stóðu fyrir til að hvetja til umburðarlyndis og trúfrelsis í landinu.

Skipuleggjendur segja ennfremur að tilgangur athafnarinnar sé að fordæma hryðjuverkin sem voru framin í París, höfuðborg Frakklands, í síðustu viku. Einnig að sýna samstöðu með þeim sem féllu fyrir hendi byssumannanna. Þetta kemur fram á vef BBC.

Þeir vilja jafnframt bregðast við fjöldafundum sem Pegida-samtökin hafa staðið fyrir víðsvegar  um Þýskaland en þar hefur „íslamsvæðingu vesturlanda“, eins og það er orðað, verið mótmælt. Um 25.000 manns tóku þátt í slíkum fjöldafundi í Dresden í gærkvöldi. 

„Við erum öll Þýskaland,“ sagði Gauck, sem ávarpaði samkomuna í kvöld. 

„Fjölbreytileiki Þýskalands hefur aukist með innflytjendum - trúarlega, menningarlega og andlega. Þessi fjölbreytileiki hefur aukið farsæld okkar, gert Þýskaland áhugaverðara og viðkunnanlegra,“ sagði forsetinn ennfremur.

„Við stöndum saman með Þýskalandi sem er opið gagnvart umheiminum, með stórt hjarta, sem virðir skoðanafrelsi, fjölmiðlafrelsi og trúfrelsi,“ sagði  Aiman Mazyek, leiðtogi samtaka múslíma í Þýskalandi, í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert