Kafarar rannsaka nú hlut sem talinn er vera skrokkur farþegavélar AirAsia sem brotlenti á Jövuhavi 28. desember sl. Þar er einnig talið að flest lík farþeganna og áhafnarinnar sé að finna.
Vélin brotlenti í slæmu veðri er hún var á leið frá Surabaya til Singapore. 162 manns voru um borð í vélinni. Búið er að finna báða flugrita vélarinnar. Vonast er til að upplýsingar úr þeim muni varpa ljósi á ástæðu þess að vélin hrapaði. Þeir sem rannsaka slysið hafa þegar hafist handa við að ná í gögnin af flugritunum.
Aðeins er búið að finna 48 lík. Reynist hluturinn sem kafararnir kanna í dag vera skrokkur vélarinnar er næsta skref að finna út hvernig hægt verður að hífa hann upp úr sjónum.
„Ef hann er ekki of þungur, gætum við hugsanlega lyft honum í heilu lagi og flutt fórnarlömbin burt,“ segir S.B. Supriyadi, yfirmaður hjá indónesísku björgunarsveitunum, í samtali við AFP-fréttaveituna.
„Ef hann er of þungur, gætum við þurft að synda inn í skrokk vélarinnar og draga líkin út eitt af öðru áður en við lyftum honum.“