Þýska öfgahreyfingin PEGIDA hefur nú náð til Spánar. Spænsk Twitter síða í nafni hreyfingarinnar var opnuð 8. janúar, daginn eftir árásirnar í París.
„Íslam á sér engan stað í frjálsum og lýðræðislegum samfélögum eins og í Evrópu,“ sagði í einni af fyrstu Twitter færslum hreyfingarinnar á Spáni.
Um átta hundruð manns fylgja nú spænska væng PEGIDA á Twitter. Jafnframt hafa yfir 2.700 manns „líkað“ við síðu hreyfingarnar á Facebook.
„Við erum nú að undirbúa mótmæli á vegum PEGIDA á Spáni, þar sem að meðlimir PEGIDA í Þýskalandi munu taka þátt. Við munum segja frá dagsetningu mótmælanna á Twitter og í tölvupósti“ sagði hópurinn í tölvupósti sem barst AFP.
Upphaflega áttu fyrstu mótmæli hreyfingarinnar á Spáni að vera á mánudaginn fyrir utan stærstu mosku Madridar. Það var þó hætt við þau eftir að borgaryfirvöld neituðu að veita leyfi fyrir mótmælunum og lögðu til aðra staðsetningu.
Sagt var frá því á mbl.is í gær að PEGIDA væri búið að ná til Íslands, en PEGIDA á Íslandi hefur nú opnað Facebook-síðu. 750 manns hafa „líkað við hana.“.
PEGIDA samtökin urðu til í október á seinasta ári í Þýskalandi en þau hafa staðið fyrir mótmælum gegn því sem þau telja íslömsk áhrif í Evrópu. Hreyfingin nefnist „Evrópskir föðurlandsvinir gegn íslamsvæðingu Vesturlanda“ eða PEGIDA. Hún var stofnuð í Dresden, höfuðborg Saxlands.
Í nýársávarpi sínu fordæmdi Angela Merkel, kanslari Þýskaland hreyfinguna og sagði að leiðtogar hennar væru með „fordóma, kulda og jafnvel hatur í hjörtum sínum“.
Um þúsund moskur eru á Spáni og samkvæmt frétt AFP búa um tvær milljónir múslíma í landinu.