Umfangsmikil lögregluaðgerð stendur nú yfir í bænum Verviers í Belgíu. Þrír hafa látist í aðgerðinni en samkvæmt frétt AFP er henni beint gegn hryðjuverkamönnum.
Ríkistútvarp Belgíu, RTBF, hefur sagt frá því að minnsta kosti þrír hafi látið lífið og að sprengingar hafi heyrst á staðnum. Það hefur þó ekki verið staðfest af yfirvöldum.
Í maí á síðasta ári létust fjórir í árás á safn Gyðinga í Brussel en Verviers er í 125 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni. Var sú árás tengd við múslímska öfgahópa. Frakkinn Mehdi Nemmouche, sem hafði áður verið í Sýrlandi, hefur verið ákærður fyrir þau morð.
Mennirnir sem aðgerðir lögreglu beinast að í Verviers í dag hafa undanfarið verið undir eftirliti en þeir sneru heim frá Sýrlandi fyrir viku síðan samkvæmt belgískum fjölmiðlum. Taldi leyniþjónusta landsins að mennirnir væru að undirbúa einhverskonar árás, en sautján manns létust í árásum hryðjuverkamanna í París í Frakklandi í síðustu viku.
Aðgerðin stendur yfir í húsi sem er fyrrum bakarí. Íbúar í nálægð við húsið segjast hafa heyrt í byssuskotum og sprengingum
„Ég heyrði einhverskonar sprengingu, og í kjölfarið nokkur byssuskot,“ sagði íbúi á svæðinu í samtali við RTBF. „Einmitt núna get ég ekki sagt ykkur meira því ég þori ekki út að gá hvað er að gerast.“
Annar íbúi sagði að vélbyssur hefðu skotið stanslaust í um tíu mínútur.
Þriðja vitnið segist hafa séð tvo unga menn, líklega af Norður Afrískum uppruna svartklædda og haldandi á svörtum poka. Bætti vitnið við að mennirnir hafi verið skelfingu lostnir.
Þrír meðlimir Ríki íslams hótuðu árásum á Belgíu í myndbandi sem var sýnt í dag.
Fyrri frétt mbl.is: