Klæddi sig upp sem Hitler í „gríni“

Hér má sjá myndina af Bachmann. Á myndin að hafa …
Hér má sjá myndina af Bachmann. Á myndin að hafa verið brandari. Skjáskot af bild.de

Ljósmynd af Lutz Bachmann, stofnanda þýsku hreyfingarinnar PEGIDA, hefur vakið athygli þýskra fjölmiðla í dag. PEGIDA er öfga­hreyf­ing­in sem berst gegn meint­um ís­lömsk­um áhrif­um í Evr­ópu. 

Á myndinni má sjá Bachmann skarta yfirvaraskeggi eins og Adolf Hitler og með sömu hárgreiðslu.

Þýska dagblaðið Bild hefur eftir talskonu hreyfingarinnar Kathrin Oertel að myndin hafi aðeins verið „brandari“. 

Bachmann birti myndina á samfélagsmiðlum og segist hafa tekið hana sjálfur í kringum þann tíma sem háðsádeilu hljóðbókin um Hitler, „He's Back“ kom út. Að sögn þýskra fjölmiðla birti Bachmann myndina löngu áður en hann varð þekkt nafn í Þýskalandi.

PEGIDA hefur haldið næstum því vikulegar mótmælagöngur í Dresden síðustu mánuði gegn íslam og hælisleitendum. Þýski miðillinn MOPO 24 heldur því fram að Bachmann hafi síðustu ár tjáð sig um hælisleitendur á samfélagsmiðlum og kallað þá „skepnur“ og „óþverra“.

Hreyfingin neyddist þó til að aflýsa mótmælagöngu sinni á mánudaginn eftir að lögregla bannaði allar opinberar samkomur í borginni þann dag. 

25 þúsund manns söfnuðust saman í mótmælagöngu samtakanna viku áður og hafa leiðtogar PEGIDA heitið því að mótmælt verði í næstu viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert