PEGIDA skaðar ímynd Þýskalands

„Ég er Lutz“. Stuðningsmaður öfgahreyfingarinnar PEGIDA lýsir stuðningi við Lutz …
„Ég er Lutz“. Stuðningsmaður öfgahreyfingarinnar PEGIDA lýsir stuðningi við Lutz Bachmann, formann hennar, sem neyddist til að draga sig í hlé eftir að mynd birtist af honum í gervi Adolfs Hitler. AFP

Utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, segir að andmúslímsk viðhorf öfgahreyfingarinnar PEGIDA skaði ímynd Þýskalands erlendis. Meðlimir samtakanna standa fyrir göngu í borginni Dresden í dag en síðast þegar slík ganga var haldin tóku 25.000 manns þátt í henni.

„Við hér heima fyrir vanmetum skaðann sem slagorð og mótmælaspjöld PEGIDA um útlendingahatur og rasisma hafa þegar haft. Hvort sem við viljum það eða ekki fylgist heimsbyggðin grannt með Þýskalandi,“ segir Steinmeier í viðtali við dagblaðið Bild sem birt var í dag.

PEGIDA stendur fyrir „Evrópskir föðurlandsvinir gegn íslamsvæðingu Vesturlanda“ og voru stofnuð 20. október í Dresden. Steinmeier segist hafa við þráspurður um uppgang andmúslímskra afla af starfsbræðrum sínum erlendis.

Benti hann á að það væri auðveldara að ná til fjölda fólks með því að gera hópa eins og innflytjendur og hælisleitendur að blórabögglum en að vekja athygli á flóknum málum eins og ófullnægjandi innviðum samfélagsins eða hækkandi meðalaldri þjóðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert