Samaras viðurkennir ósigur

Antonis Samaras, fráfarandi forsætisráðherra Grikklands.
Antonis Samaras, fráfarandi forsætisráðherra Grikklands. AFP

Forsætisráðherra Grikklands, Antonis Samaras, hefur játað sig sigraðan í þingkosningunum í landinu sem fram fóru í dag. Samkvæmt útgönguspám er róttæki vinstriflokkurinn Syriza sigurvegari kosninganna. Flokkur Samaras er næst stærstur.

Fram kemur í frétt AFP að Samaras hafi lýst því yfir að gríska þjóðin hefði sagt sína skoðun. Sagðist hann vona að ný ríkisstjórn myndi ekki setja veru Grikkja í Evrópusambandinu og aðild þeirra að evrusvæðinu í hættu. Syriza hefur heitið því að aðhaldsaðgerðum í Grikklandi að kröfu Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði hætt og endursamið um skuldir landsins.

„Ég afhendi land sem er hluti af Evrópusambandinu og evrunni. Með hagsmuni landsins í huga vona ég að næsta ríkisstjórn haldi í það sem hefur áunnist,“ sagði Samaras í stuttu ávarpi fyrir framan fréttamenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert