Tveimur sonum Hosnis Mubaraks, fyrrverandi forseta Egyptalands, hefur verið sleppt úr fangelsi. Fjögur ár eru frá því að mótmæli hófust í landinu sem enduðu með því að Mubarak fór frá völdum.
Alaa og Gamal Mubarak fengu frelsið snemma í morgun. Þeir voru í fangelsi í Kaíró en er nú sagðir komnir heim til sín í borginni Heliopolis.
Í síðustu viku komst dómstóll að þeirri niðurstöðu að mennirnir skyldu látnir lausir úr fangelsi á meðan beðið er endurupptöku fjárdráttarmáls þeirra. Dómurinn komst að því að mennirnir hefðu báðir setið hámarkstíma í varðhaldi vegna málsins.
Í frétt BBC um málið segir að ástæðan fyrir mótmælunum í Egyptalandi á sínum tíma hafi m.a. verið reiði vegna meintra fjársvika Mubaraks og sona hans. Feðgarnir voru allir þrír hnepptir í varðhald í apríl árið 2011 og ákærðir fyrir fjársvik og innherjasvik. Þeir voru dæmdir í fjögurra ára fangelsi en nú í janúar ákvað dómstóll að málið skyldi endurupptekið þar sem ekki hafði verið fylgt lögum og reglum til hins ýtrasta við meðferð málsins.