Minna virðist hafa orðið úr bylnum sem gekk yfir New York-svæðið en yfirvöld höfðu búið sig undir. Að sögn Dóróteu Höeg Sigurðardóttir sem býr í Princeton í New Jersey-ríki er ekki sérlega mikill snjór þar. Svo virðist sem að snjókoma á borð við þessa komi Bandaríkjamönnum alltaf á óvart.
Ferðabanni sem lagt var á í gær var aflétt í New York og New Jersey í morgun. Stormviðvörun er þó enn í gildi í Massachusetts og Rhode Island en þar var búist við 5-8 cm snjókomu á klukkustund. Snjókoma á New York-svæðinu var nokkuð kaflaskipt. Á sumum stöðum nam hún aðeins um 10 cm en annars staðar, eins og á La Guardia-flugvelli, nam hún um 28 cm.
Dórótea býr í bænum Princeton í New Jersey, um klukkutíma lestarferð frá New York, þar sem hún er í doktorsnámi í byggingarverkfræði. Hún segir ástandið hjá sér ágætt. Skólum hafi hins vegar verið lokað og strætisvagnar ganga ekki.
„Það er svona snjómugga. Lítil snjókorn falla hérna hægt til jarðar. Það hefur ekkert snjóað neitt rosalega mikið á þessu svæði, nokkrir sentímetrar sem hafa fallið í nótt. Það er búið að loka skólunum í kringum okkur. Skólinn okkar er lokaður og líklega allir grunnskólarnir. Það er líklega út af umferðinni frekar en einhverju öðru. Bílarnir eru ekkert allir sérstaklega vel búnir og erfitt að stefna mikið af fólki út í umferðinni. Það er ekkert ófært á íslenskan mælikvarða,“ segir hún.
Aðalhætta í veðri sem þessu sé hins vegar að rafmagn geti farið af enda eru rafmagnslínur flestar ofanjarðar. Dórótea segir að henni sýnist samt ekki líkur á því núna. Til þess sé snjókoman ekki nægilega mikil.
„Þeir eru ekkert alltaf jafnvel undirbúnir. Þeim kemur alltaf á óvart þegar fer að snjóa. Það grípur stundum um sig einhver örvænting held ég. Maður á ekki alltaf að taka þessar fréttir of alvarlega,“ segir hún.