Fjölskylda Alice Gross, 14 ára stúlku sem hvarf í ágúst á síðasta ári og fannst látin mánuði síðar, segir að enn eigi eftir að svara mörgum „alvarlegum“ spurningum um Arnis Zalkalns sem talinn er hafa myrt stúlkuna. Lögregla segir að stúlkan hafi líklega verið látin áður en hvarf hennar var tilkynnt.
Síðast sást til Gross á lífi hinn 28. ágúst. Þá sást hún á myndskeiði í öryggismyndavél þar sem hún gekk meðfram Grand Union-skipaskurðinum í Hanwell í Bretlandi. Lík hennar fannst í Brent-ánni rúmum mánuði síðar, vafið í plast.
Líkinu var komið fyrir þannig að erfitt var að finna það. Ofan á því var dekk af reiðhjóli, múrsteinar og sex trjábolir.
Lík Zalkalns fannst í byrjun október á síðasta ári. Það var svo illa farið að það varð að bera kennsl á líkið með því að styðjast við upplýsingar úr tannlæknaskýrslu. Hann hafði hengt sig í skóglendi í almenningsgarði í vesturhluta Lundúna.