Varð fyrir skoti lögreglu

Dawson og Johnson var minnst fyrir utan kaffihúsið.
Dawson og Johnson var minnst fyrir utan kaffihúsið. AFP

Annar af gíslunum tveimur sem létu lífið í umsátri á kaffihúsi í Sydney í desember á síðasta ári varð fyrir skotum lögreglu. Þetta kemur fram í skýrslu um málið sem var kynnt í dag.

Þeir gíslar sem létust voru báðir starfsmenn á kaffihúsinu. Katrina Dawson var 38 ára og þriggja barna móðir. Hún lést ásamt yfirmanni sínum, Tori Johnson, sem var 34 ára. Þar að auki lést gíslatökumaðurinn, hinn íranski Man Haron Monis, þegar lögregla réðst inn á kaffihúsið. 

„Dawson varð fyrir sex brotum úr byssukúlu eða -kúlum lögreglu sem skutust af hörðu yfirborði yfir í líkama hennar,“ sagði Jeremy Gormly, aðstoðarmaður við krufningu, í dag. 

Sagði Gormly að brotin hefðu hæft stóra æð og að Dawson hefði misst meðvitund og látist fljótlega. 

Á skýrslan að útskýra hvað gerðist í umsátrinu, þar sem sautján gíslum var haldið. Jafnframt mun hún segja frá viðbrögðum lögreglu og bakgrunni og ástæðum Monis fyrir gíslatökunni.

Gormly sagði að Johnson hefði verið skotinn í höfuðið af Monis, sem var vopnaður afsagaðri haglabyssu, aðeins nokkrum augnablikum eftir að nokkrir gíslar náðu að sleppa. 

„Johnson var látinn leggjast á hnén á Monis. Eftir stutta stund skaut Monis hann án viðvörunar,“ sagði hann. „Byssuhlaupið var í um 75 sentímetra fjarlægð frá höfði Johnsons er skotið var. Talið er að Johnson hafi látist strax.“

Lögreglumenn skutu 22 skotum inn í kaffihúsið eftir að 11 leiftursprengjum var kastað þar inn. Á meðan skaut Monis tveimur skotum. „Byssukúlur og brot úr byssukúlum hæfðu Monis, sem lést samstundis,“ sagði Gromly. 

„Að minnsta kosti tvær kúlur, eða brot úr kúlum, hæfðu Monis í höfuðið og 11 aðrar kúlur eða brot hæfðu líkama hans.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert