Samþykktu lagningu olíuleiðslunnar

Öldungadeild bandaríska þingsins samþykkti í gærkvöldi lagningu olíuleiðslunnar Keystone XL þrátt fyrir opinberar mótbárur Obama forseta. Leiðslan á að flytja olíu frá Kanada allt suður til Mexíkó, þvert yfir öll Bandaríkin. Umhverfisverndarsinnar segja mikil umhverfisspjöll fylgja vinnslu olíunnar í Alberta í Kanada. Margir vilja meina að olíuleiðsla sem þessi sé gamaldags, frekar eigi að einbeita sér að nýjum og endurvinnanlegum orkugjöfum.

Öldungadeildin, þar sem Repúblikanar eru í meirihluta, kaus um málið í gærkvöldi og var niðurstaðan sú að 62 þingmenn kusu með málinu en 36 gegn því. Níu Demókratar kusu með leiðslunni. 100 þingmenn eru á þinginu.

Barack Obama forseti hefur neitunarvald en þegar tveir þriðju hlutar þingsins kjósa með málum fellur það úr gildi. Ekki náðist nægur stuðningur í þinginu til að útiloka Obama frá málinu. Því þarf að bera málið undir hann.

Lagning leiðslunnar var fyrst lögð fram á þingi árið 2008. Kostnaður við verkefnið verður 8 milljarðar bandaríkjadala. Málið hefur tafist mjög, m.a. við afgreiðslu í ríkinu Nebraska sem vildi hafa eitthvað að segja um þá leið sem leiðslan yrði lögð um ríkið.

Olíuleiðslan mun tengja saman aðrar olíuleiðslur sem þegar eru til staðar og flytja yfir 800 þúsund tunnur af olíu á dag frá Kanada til olíuhreinsistöðva Texasflóa.

Leiðtogi Lakota-indíána, Arvol Looking Horse, var meðal þeirra sem mótmælti …
Leiðtogi Lakota-indíána, Arvol Looking Horse, var meðal þeirra sem mótmælti lagningu olíuleiðslunnar í gær. AFP
Kosið var um málið í þinghúsinu í gærkvöldi.
Kosið var um málið í þinghúsinu í gærkvöldi. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert