Franskur kaupsýslumaður, David Roquet, segir að fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, hafi ekki vitað að konurnar sem tóku þátt í kynlífssvalli þeirra væru vændiskonur.
Þetta kom fram í máli Roquet í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina BFM í morgun en síðar í dag mun Roquet bera vitni við réttarhöldin í Lille þar sem Strauss-Kahn er meðal annarra sakaður um aðild að stórfelldri vændisstarfsemi.
Roquet segir að hann hafi greitt konunum eftir veislurnar án vitneskju Strauss-Kahn og að hann hafi aldrei upplýst Strauss-Kahn um að konurnar fengju greitt fyrir að liggja með honum.
Glæsilegar og fágaðar stúlkur
„Stúlkurnar sem tóku þátt með okkur voru glæsilegar og fágaðar. Þetta átti ekkert sameiginlegt með því að vera í bíl á bílastæði í grenjandi rigningu,“segir Roquet.
Að sögn Roquet var það mikill heiður að fá að eyða síðdegi með manni sem var annar áhrifamesti maður heims og tilvonandi forseti lýðveldisins. „Það var faglegt markmið mitt, að skipuleggja hádegisverð með Strauss-Kahn og öðrum kaupsýslumönnum,“ segir Roquet.
Alls eru fjórtán, þar á meðal kaupsýslumenn og lögreglumenn, sem tengjast gegnum frímúrararegluna, sakaðir um hórmang með því að skipuleggja kynlífsveislur á herbergjum lúxushótela sem vændiskonur voru fengnar til að taka þátt í.
Strauss-Kahn mun mæta í dómssalinn á þriðjudag er hann ber vitni í málinu.
Það var lögfræðingurinn Emmanuel Riglaire sem var fyrstur í vitnastúkuna í réttarsalnum í Lille. Hann er sakaður um að hafa kynnt vændiskonu og yfirmann almannatengsla Carlton hótelsins í Lille þar sem einhverjar svallveislur voru haldnar. Riglaire neitar sök og segir að fjölskylda hans hafi gengið í gegnum helvíti frá því rannsókn málsins komst í hámæli. „Það er ekkert nema skemmt fólk hér inni í þessu herbergi,“ sagði hann og reyndi að halda aftur af tárunum. „Ég mun aldrei fyrirgefa þeim sem hafa dregið okkur hingað fyrir þennan dóm og séð til þess að málið er á allra vörum.“