Fréttaþulur bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar NBC, Brian Williams, mun víkja tímabundið úr starfi, en hann baðst nýverið afsökunar á því að segjast hafa orðið fyrir árás í Írak. Williams sagði ítrekað frá þeirri reynslu sinni að hafa verið í þyrlu sem var skotin niður í Írak en hermenn efuðust um frásögn hans. Williams, sem er mjög vinsæll þulur vestanhafs, segir að minnið hafi brugðist sér.
Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gærkvöld segir að hann verði ekki með kvöldþátt sinn næstu dagana á meðan málið er í rannsókn.
„Ég gerði mistök þegar ég rifjaði upp þessa atburði sem gerðust fyrir tólf árum,“ sagði hann er hann baðst afsökunar í beinni útsendingu á miðvikudag. „Ég vil biðjast afsökunar. Ég sagðist hafa verið í loftfarinu sem varð fyrir skotum. Hið rétta er að ég var í loftfarinu sem fylgdi á eftir.“
Afsökunarbeiðnin kom í kjölfar þess að hermenn sem voru í þyrlunni sem varð fyrir árás höfðu bent á að hann var ekki um borð er þetta gerðist.
Einn þeirra, verkfræðingurinn Lance Reynolds skrifaði m.a.: „Afsakaðu félagi, en ég man ekki eftir þér um borð í loftfarinu. Ég man að þú komst um klukkustund eftir að við lentum og spurðir mig hvað hefði gerst.“
Í kjölfar málsins hafa einnig vaknað spurningar um umfjöllun Williams um fellibylinn Katrinu árið 2005. Að minnsta kosti einn heilbrigðisstarfsmaður efast um þá fullyrðingu Williams að hann hafi fengið blóðkreppusótt eftir að hafa sinnt fréttaflutningi af fellibylnum.