Mætti í fáar kynlífsveislur að eigin sögn

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn (DSK), neitar því að hafa brotið af sér með saknæmum hætti og hann hafi afar sjaldan tekið þátt í kynlífssvallveislum. Segir hann að það hafi nú ekki einu sinni verið neitt villt við þessar veislur.

DSK bar vitni fyrir rétti í Lille í norðurhluta Frakklands í morgun en hann er sakaður um, ásamt 13 öðrum, aðild að  stórfelldu hórmangi. Strauss-Kahn er sakaður um að hafa aflað vændiskvenna fyrir vændishring sem var starfræktur á hóteli í Lille.

Áður hefur komið fram í máli DKS, sem allt benti til þess að yrði kjörinn forseti Frakklands á sínum tíma, að hann hefði ekki haft hugmynd um að konurnar sem tóku þátt í svallveislunum hafi verið vændiskonur. Nú kom fram í máli hans að hann hafi sjaldan mætt í slíkar veislur og þær hafi alls ekki verið villtar.

Saksóknarar halda því fram að Strauss-Kahn, 65 ára, hafi leikið lykilhlutverk í undirbúningi kynlífssvallsveisla. Segja þeir að hann hafi verið „konungur veislunnar (roi de la fête)“.

Kaup á vændi eru ekki saknæm í Frakklandi en það er saknæmt að útvega vændiskonur eða stunda hórmang með öðrum hætti.

„Ég framdi engan glæp,“ (je n'ai commis ni crime, ni délit)“voru fyrstu orð DSK í vitnastúkunni í morgun. Hann bætti við að þær hafi verið fáar kynlífsveislurnar sem hann tók þátt í og það hafi liðið langt á milli þeirra. 

Þegar dómarinn, Bernard Lemaire, spurði hagfræðinginn og fyrrverandi fjármálaráðherra Frakklands, Dominique Strauss-Kahn, að því hvort hann hafi vitað að því að konurnar í veislunum væru vændiskonur svaraði hann því neitandi.

Á eftir DSK steig Mounia, sem áður starfaði sem vændiskona, í vitnastúkuna. Hún lýsti því við réttarhöldin í gær að hún hafi fengið greitt fyrir að þjóna DSK í kynlífsveislu.  

Mounia tárfelli í réttarsalnum í dag þegar hún rifjaði upp næturnar með Strauss-Kahn á hóteli í París. Sagðist hún hafa verið neydd til þess að taka þátt í kynlífsathöfnum sem brytu gegn mannlegu eðli. „Ég held að hann hafi gert sér grein fyrir því að ég vildi ekki gera þetta. Ég grét, ég var kvalin,“ sagði Mounia og bætti því við að hún hafi tekið þátt áfram þar sem hún var fjárþurfi.

Hún segir að það hafi hins vegar aldrei verið rætt um peninga eða greiðslur fyrir þjónustu hennar þegar Strauss-Kahn heyrði til. Hún sagði að á meðan hún hafi verið klædd á fremur klassískan hátt hafi hinar vændiskonurnar verði meira ögrandi í klæðaburði sem gaf frekar til kynna við hvað þær störfuðu.

Dominique Strauss-Kahn
Dominique Strauss-Kahn AFP
Liðsmenn Femen voru mættir fyrir utan réttarsalinn í Lille í …
Liðsmenn Femen voru mættir fyrir utan réttarsalinn í Lille í morgun AFP
AFP
Fjölmiðlamenn fylgjast áhugasamir með því er lögreglan handtekur Femen aðgerðarsinna
Fjölmiðlamenn fylgjast áhugasamir með því er lögreglan handtekur Femen aðgerðarsinna AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka