Víxl á börnum skaðabótaskyld

Manon Serrano og Sophie Serrano
Manon Serrano og Sophie Serrano AFP

Tvær franskar fjölskyldur munu fá greiddar 1,88 milljónir evra, 282 milljónir króna, hvor í bætur vegna þess að börnum þeirra var ruglað á fæðingardeild fyrir rúmum tveimur áratugum.

Tvenn frönsk hjón veltu því oft fyr­ir sér í gegn­um tíðina hvort þau hefðu fengið rétt barn á fæðing­ar­deild­inni. Líf­sýn­a­rann­sókn leiddi í ljós að ótti þeirra reynd­ist á rök­um reist­ur. 

Dóm­stóll í borg­inni Grasse hef­ur nú staðfest að fjöl­skyld­urn­ar eigi rétt á bót­um fyr­ir mis­tök­in og hef­ur fæðing­ar­deild­inni í Cann­es verið gert að greiða þeim bæt­urn­ar. Fjár­hæðin sem þau fá er hins veg­ar sex sinn­um lægri en farið var fram á.

Upp­haf sög­unn­ar má rekja til 4. júlí 1994 þegar Sophie Serrano fæddi stúlk­una Manon fæðing­ar­deild­inni í Cann­es. Litla stúlk­an var með gulu og því settu lækn­ar hana í hi­ta­kassa með ljós­um ásamt ann­arri ný­fæddri stúlku til þess að lækna þær af gul­unni.

Fyr­ir mis­tök víxlaði hjúkr­un­ar­fræðing­ur stúlk­un­um og þrátt fyr­ir að báðar mæðurn­ar hefðu efa­semd­ir um að þær ættu viðkom­andi dótt­ur voru þær send­ar heim með stúlk­urn­ar. Gilti einu þótt þær bentu á að hársídd hvors barns passaði ekki við barnið áður en það fór í hi­ta­kass­ann.

Tíu árum síðar ákvað faðir Manon, sem undraðist mjög að dótt­ir hans líkt­ist hon­um ekki á nokk­urn hátt, að fara í faðern­is­próf sem leiddi í ljós að hann var ekki faðir henn­ar. Í kjöl­farið kom í ljós að Sophie Serrano var ekki móðir Manon og því ákváðu þau að fara á stúf­ana og leita uppi hina fjöl­skyld­una sem hafði farið heim með dótt­ur þeirra. Rann­sókn leiddi í ljós að á þess­um tíma fædd­ust þrjú börn á sjúkra­hús­inu, tvær stúlk­ur og einn pilt­ur, sem þurftu á ljósameðferð að halda vegna gulu. Þar sem það voru aðeins til tveir hi­ta­kass­ar voru stúlk­urn­ar sett­ar sam­an í hi­takasa.

Fjölskyldurnar tvær hittust í fyrsta skipti frá fæðingu stúlknanna fyrir tíu árum en ekki kom til greina af þeirra hálfu að skipta á börnum. Síðan þá hafa fjölskyldurnar ekki haft samband og því ekki hist á nýjan leik.

Börnum víxlað á fæðingardeildinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert