Francesco Schettino, skipstjóri farþegaskipsins Costa Concordia, brast í grát í dómsal í dag þegar hann gerði lokatilraun til að biðla til dómara um miskunn í máli sínu. Schettino er ákærður fyrir að hafa valdið dauða 32 farþega skipsins, þegar það strandaði undan eyjunni Giglio árið 2012.
Skipstjórinn útlistaði hvernig aðför hefði verið gerð að honum og mannorði hans sl. þrjú ár. Hann hvatti dómarana þrjá sem munu ákvarða örlög hans til að gera hann ekki einan ábyrgan fyrir slysinu, en auk þess að vera ákærður fyrir að bera ábyrgð á strandinu, hefur hann verið sakaður um að hafa fyrirskipa rýmingu skipsins seint og síðar meir, og um að hafa sjálfur yfirgefið skipið áður en aðrir voru hólpnir.
„Ég hef varið síðustu þremur árum í hakkavél fjölmiðla,“ sagði Schettino, sem á yfir höfði sér allt að 26 ára fangelsisdóm. „Það er erfitt að kalla það sem ég hef upplifað líf. Allri ábyrgð hefur verið varpað á mig, án virðingar fyrir sannleikanum né minningu fórnarlambanna,“ sagði hann.
Skipstjórinn náði ekki að ljúka máli sínu, heldur brast í háværan grát og sagði að lokum „basta“, eða nóg, áður en hann lét sig falla í sæti.
Shettino kennir áhöfn sinni um að báturinn strandaði og heldur því fram að hann hafi dottið í bátinn sem sigldi með hann frá skipinu.
Niðurstöðu í málinu er að vænta í kvöld eða á morgun.