Francesco Schettino, sem var skipstjóri farþegaskipsins Costa Concordia, hefur verið dæmdur í 16 ára fangelsi. Schettino er ákærður fyrir að hafa valdið dauða 32 farþega skipsins, þegar það strandaði undan eyjunni Giglio árið 2012.
Við aðalmeðferð málsins kenndi Schettino áhöfninni um það sem fór úrskeiðis og neitaði sök.
„Ég er viljugur til að axla einn hluta ábyrgðarinnar, en aðeins einn part,“ sagði hann. Skipstjórinn hélt því fram að verið væri að gera hann að blóraböggli.
Costa Concordia, sem er tvisvar sinnum stærri en Titanic var, sigldi á 16 hnútum og bar 4.229 einstaklinga frá 70 þjóðlöndum innanborðs þegar það sökk.
Réttarhöldin yfir Schettino, sem er 54 ára gamall, stóðu yfir í 19 mánuði og var dómur kveðinn upp yfir honum í kvöld. Schettino getur áfrýjað dómnum til æðra dómstigs.
Schettino brast í grát við aðalmeðferðina þegar hann bað dómarana um miskunn. Hann var ákærður fyrir manndráp, fyrir að hafa valdið skipbroti og fyrir að yfirgefa skipið á meðan áhöfn og farþegar voru enn um borð.
Saksóknarar kröfðust þess að hann yrði dæmdur í 26 ára fangelsi.