Þrír ungir múslímar, allir úr sömu fjölskyldu, voru skotnir til bana síðdegis í gær á heimili sínu í friðsælu hverfi í Norður-Karólínu. Maður á fimmtugsaldri hefur verið handtekinn grunaður um morðin sem minna helst á aftöku.
Samkvæmt frétt Independent hefur lögregla nafngreint fórnarlömbin: Deah Shaddy Barakat, 23 ára, eiginkona hans, Yusor Mohammad, 21 árs og systir hennar, Razan Mohammad Abu-Salha, 19 ára.
Lögregla var kölluð út eftir að byssuhvellir heyrðust frá fjölbýlishúsinu sem fólkið bjó í við Summerwalk Circle á Chapel Hill. Lögreglan hefur handtekið 46 ára gamlan mann, Craig Stephen Hicks, grunaður um að hafa myrt fólkið af yfirlögðu ráði.
Morðin hafa vakið hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum þar sem fólk hefur birt fjölmargar myndir af fórnarlömbunum þar sem þau sjást við nám og leik. Þar er aftöku þeirra líkt við árásina á ritstjórn Charlie Hebdo í París og aðrir hvetja forseta Bandaríkjanna, Barack Obama og trúarleiðtoga til þess að fordæma árásina.
Barakat var tannlæknanemi við Háskólann í Norður-Karólínu og starfaði auk þess sem sjálfboðaliði hjá samtökum sem veittu börnum í neyð í Palestínu tannlæknaþjónustu. Hann var mikill áhugamaður um knattspyrnu og körfubolta.
Hann var mjög virkur á Twitter og skrifaði í janúar: „Það er svo skelfilega sorglegt að heyra fólk segja að það eigi að drepa gyðinga eða Palestínumenn. Eins og það leysi eitthvað.“
Pazan hafði mikinn áhuga á listum og ljósmyndum og hóf nám í arkitektúr og umhverfishönnun við Háskólann í Norður-Karólínu í fyrra.
Update: 2 of the #ChapelHillShooting victims recently posted pics of their wedding to Facebook http://t.co/VVN4slLMdq pic.twitter.com/dUxyjaHsvH
— Jim Dalrymple II (@JimDalrympleII) February 11, 2015