Myrt vegna deilna um bílastæði

Þúsundir komu saman í Chapel Hill í Norður-Karólínu í gærkvöldi til þess að minnast þriggja námsmanna sem voru myrt af nágranna sínum. Mikil reiði greip um sig vegna morðanna víða um heim, meðal annars vegna þess að ungmennin voru öll múslímar og talið að þau hefðu verið myrt vegna trúarskoðana sinna.

Morðinginn var handtekinn skömmu síðar en hann er nágranni þeirra og trúleysingi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu tengjast morðin deilum um bílastæði við húsið en hann bjó í sama húsi og ungmennin þrjú. Ekki er hins vegar útilokað að hatur hans á trú hafi haft áhrif á það að hann skaut þrjú ungmenni til bana líkt og um aftöku væri að ræða.

Vinir og fjölskyldur þremenninganna komu saman við North Carolina háskólann til þess að minnast þeirra Deah Shaddy Barakat, 23 ára, eiginkonu hans Yusor Mohammad, 21 árs og 19 ára gamallar systur hennar, Razan Mohammad Abu-Salha.

Nágranni þeirra, Craig Stephen Hicks, 46 ára, situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa myrt þau. Á Facebook síðu hans er meðal að finna andtrúarlegar skoðanir hans. 

Mohammad Yousif Abu-Salha, faðir kvennanna sem voru myrtar, segir í samtali við New York Times að Yusor hafi sagt honum að hún og eiginmaður hennar hafi orðið fyrir áreiti af hálfu nágranna síns sem gengi um með byssu í beltinu. Á Facebook síðu sinni birti Hicks nýverið mynd af byssu sinni, .38-calibera fimm skota skammbyssu. 

Morðin eru rannsökuð sem hatursglæpur af lögreglunni í Chapel Hill og á Craig yfir höfði sér dauðarefsingu eða lífstíðarfangelsi án möguleika á náðun.

Farris Barakat, bróðir Deahs, minntist bróður síns við athöfnina í gærkvöldi en hann var tannlæknanemi og forfallinn íþróttaáhugamaður. Hann hvetur fólk til þess að láta morðin ekki verða til þess að frekara ofbeldi verði beitt. 

Barakat og Mohammad gengu í hjónaband seint í desember og hún ætlaði að hefja nám í tannlækningum í sumar. Systir hennar er nemandi við ríkisháskólann í Norður-Karólínu, North Carolina State University.

Bestu vinkonur Mohammad segja að hún hafi stefnt að því að hlaupa maraþon og eins trúarskoðana hennar. „Yosur var ein sú saklausasta og besta manneskja sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta gat gerst fyrir hana og það sama á við um Razan,“ sagði Omar Abdul-Baki, formaður stúdentaráðs tannlæknadeildar háskóalns.

Barakat, er sonur sýrlensks innflytjenda og er þekktur fyrir mannúðarstörf þar sem hann bauð þeim sem voru í þörf ókeypis tannlækningar og stefndi að því að fara til Tyrklands að aðstoða sýrlenska flóttamenn.

Tilkynning frá lögreglunni

Tók þrjú ungmenni af lífi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert