Breskir stuðningsmenn PEGIDA-hreyfingarinnar, sem er á móti meintri „íslamsvæðingu“ í Evrópu, skipuleggja nú sína fyrstu mótmælagöngu í Bretlandi. Á hún að fara fram 28. febrúar og er haldin af hóp sem kallar sig PEGIDA UK.
Slagorð hreyfingarinnar er „United Against Extremism“ eða „Sameinuð gegn öfgastefnu“ og fer mótmælagangan fram í Newcastle.
Í yfirlýsingu frá lögreglu þar kemur fram að skipuleggjendur mótmælagöngunnar hafi látið lögreglu vita af ætlunum sínum. Kom jafnframt fram að lögregla viti af aðgerðum í borginni gegn PEGIDA sama dag.
„Við munum ræða við alla sem taka þátt, samstarfsfélaga okkar og samfélögin í borginni til þess að skipuleggja hvernig dagurinn verður,“ sagði jafnframt í yfirlýsingunni.
PEGIDA er öfga-hægrihreyfing sem er á móti meintum áhrifum íslams í Evrópu og „saknæmum hælisleitendum“. 25 þúsund manns mættu á mótmælafund samtakanna í Dresden í Þýskalandi í síðustu viku, en einmitt þar voru samtökin stofnuð.
Síðan þá hefur fækkað rækilega í hópnum þrátt fyrir að samtökin haldi áfram að halda mótmæli, m.a. í Austurríki og Svíþjóð í síðustu viku.