Ekki fyrsta tilræðið við Lars Vilks

Sænski skopmyndateiknarinn Lars Vilks.
Sænski skopmyndateiknarinn Lars Vilks. AFP

Talið er að árásármennirnir, sem hófu skothríð á ráðstefnu í Kaupmannahöfn í dag, hafi ætlað að ráða af dögum sænska teiknarann Lars Vilks. Hann var einn af skipuleggjendum ráðstefnunnar í leikhúsinu Krudttønd­en á Austurbrú. Umfjöllunarefnið var guðlast og tjáningarfrelsi.

Árásin í dag er ekki fyrsta tilraunin til að ráða Vilks af dögum.

Allt frá því að skopmynd hans af spámanninum Múhameð í hundslíki birtist árið 2007 hefur hann ekki verið vinsæll meðal margra múslima sem hafa sumir fordæmt teikningarnar. Fjöldi sænskra dagblaða birti myndirnar.

Múslim­ar stóðu fyr­ir mót­mælaaðgerðum víða um Svíþjóð í kjölfar þess að myndirnar voru birtar og sendu rík­is­stjórn­ir Egypta­lands, Írans og Pak­ist­ans frá sér form­leg mót­mæli vegna málsins. 

Hann hefur reglulega fengið líflátshótanir og þá var meðal annars reynt að kveikja í  húsi hans á Skáni á sínum tíma. Voru tveir ungir bræðir, sem eru sænskir ríkisborgarar en fæddir í Kosovo, dæmdir í tveggja ára fangelsi. Köstuðu þeir bens­ín­sprengj­um á húsið.

Árið 2007 voru sjö manns handteknir á Írlandi, grunaðir um að hafa lagt á ráðin um að myrða Vilks. Árið 2012 voru síðan þrír menn sýknaðir í héraðsdómi í Gautaborg af ákæru um að hafa ætlað að myrða Vilks. Þeir voru hins vegar sektaðir fyrir ólöglegan vopnaburð, en þeir voru með fjölda hnífa á sér þegar þeir voru handteknir árið 2011.

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur staðfest að árásarmennirnir tveir hafi skotið tvo lífverði Vilks í anddyri leikhússins. Báðir eru særðir en annar þeirra er talinn í lífshættu. Þeir voru báðir sænskir lögreglumenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert