Undirstrika trú á lýðræðið

Frá minningarathöfninni í Kaupmannahöfn í kvöld.
Frá minningarathöfninni í Kaupmannahöfn í kvöld. AFP

„Það skiptir auðvitað máli að koma saman, ræða hlutina og undirstrika trúna á lýðræðið og opið samfélag,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, um minningarathöfnina sem haldin var í Kaupmannahöfn í kvöld um fórnarlömb hryðjuverkanna þar um helgina.

Talið er að um 30.000 manns hafi komið saman á Gunnar Nu Hansens-torgi á Austurbrú í Kaupmannahöfn. Þeirra á meðal voru Dagur og Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. Tveir menn létust í tveimur skotárásum ungs manns á laugardag og aðfaranótt sunnudags.

„Þetta var látlaus og falleg stund. Það var gríðarlega góð mæting, tugir þúsunda, þannig að það þurfti að finna nýja staðsetningu fyrir þetta. Mér leið eins og Kaupmannahafnarbúar væru að koma saman til þess að sýna samstöðu og votta þeim látnu virðingu sína,“ segir Dagur í samtali við mbl.is.

Hann telur að allir séu hugsi yfir atburðunum í Kaupmannahöfn nú um helgina og í París í byrjun janúar. Þeir kalli á samstöðu á milli landa.

„Ég hitti til dæmis borgarstjóra Oslóar sem tengir þetta auðvitað bæði af hug og hjarta við atburðina í Osló og Útey. Ég held að þetta hafi svona sterk áhrif á okkur vegna þess að þetta eru borgir sem við þekkjum mjög vel og standa okkur nærri hjarta. Það þekkja auðvitað allir Íslendingar fullt af fólki sem býr við þessar götur og hefur gegnið þær. Þess vegna skiptir auðvitað máli að koma saman, ræða hlutina og undirstrika trúna á lýðræðið og opið samfélag,“ segir Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka