Betur vopnaður en lögregla

Skopmyndateiknarinn Lars Vilks.
Skopmyndateiknarinn Lars Vilks. AFP

Lars Vilks, sænski skopmyndateiknarinn sem talinn er hafa verið skotmark fyrri árásarinnar í Kaupmannahöfn um helgina, segir að danska lögreglan hafi vanmetið hryðjuverkaógnina í kjölfar árásarinnar á Charlie Hebdo í janúar sl.

„Árásarmaðurinn var búinn góðum vopnum, hann var betur vopnbúinn en lögreglan... Það varð stigmögnun frá árásunum á Charlie Hebdo og Danirnir höfðu ekki meðtekið það,“ sagði Vilks í samtali við AFP.

Vilks fór í felur eftir árásina um helgina.

„Þeir juku ekki öryggi á laugardag. Það var það sama og við höfum áður búið við... þeir verða að velta því fyrir sér hvort þeir þurfa að vera betur vopnaðir,“ bætti Vilks við, og vísar til fyrri árásarinnar, á menningarmiðstöð þar sem íslam og tjáningarfrelsi voru til umræðu.

Heimildarmyndaleikstjóri lést í þeirri árás og þrír lögreglumenn særðust. Árásarmaðurinn réðst síðar á samkomuhús gyðinga og myrti öryggisvörð.

Vilks hafa borist fjöldi dauðlátshótana eftir að skopmyndir sem hann teiknaði af Múhameð spámanni birtust í sænsku dagblaði 2007. Hann hefur notið verndar lögreglu frá 2010. Hann dvelur nú á „öruggum“ stað samkvæmt lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka