Hussein „með gott hjarta“

Fólk minntist fórnarlambanna fyrir utan bænahús gyðinga þar sem að …
Fólk minntist fórnarlambanna fyrir utan bænahús gyðinga þar sem að önnur skotárásanna fór fram. AFP

Omar Abdelhamid Hussein, sem grunaður er um að hafa skotið tvo til bana og sært fimm í Kaupmannahöfn um helgina var „traustur“ og með „gott hjarta“. Þetta segir vinur Hussein.

Bandaríska fréttastofan NBC greinir frá þessu. Komið hefur fram að Hussein var vel þekktur innan dönsku lögreglunnar og hafði nýlega setið í fangelsi. Hann var skotinn til bana eftir að hann hóf skotárás á lögreglumenn á sunnudaginn. 

„Ég get ekki sagt neitt slæmt um Omar því ég var ekki með þessa tilfinningu gagnvart honum,“sagði Mark Undall, sem þekkti Hussein í sjö ár, en þeir stunduðu saman íþróttina kickbox. 

„Fyrir mér var Omar venjulegur ungur maður sem var traustur gagnvart vinum sínum og með gott hjarta,“ sagði Udall í samtali við NBC. „Meinar gjörðir hans eru eitthvað sem ég hvorki tengi við eða þekki.“

Miklar öryggisráðstafanir hafa staðið yfir í Kaupmannahöfn síðan á laugardaginn. Í gærkvöldi söfnuðust tugir þúsunda saman í borginni til þess að minnast þeirra sem féllu og ýta undir skilning á milli mismunandi samfélaga í Kaupmannahöfn. 

„Þetta er mjög hjartnæmt,“ sagði Maya Möller sem var við athöfnina í gær. „Við þurfum að muna að vera ekki reið út í alla múslíma í Danmörku.“

Hussein var sleppt úr fangelsi fyrir aðeins tveimur vikum síðan. Þá sat hann inni fyrir alvarlega hnífsstungu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka