Strauss-Kahn sleppur væntanlega

Saksóknarar munu að öllum líkindum ekki krefjast þess að Dominique Strauss-Kahn fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, verði sakfelldur fyrir aðild að vændishring þar sem fallið hefur verið frá fimm af sex ákærum á hendur honum í málinu.

Ég framdi engan glæp,“ sagði Dominique Strauss-Kahn fyrir dómi í Lille í Frakklandi í síðustu viku en hann ásamt þrettán öðrum hefur verið sakaður um hórmang. Hann hefur staðfastlega neitað því að hafa vitað af því að konurnar sem tóku þátt í kynsvalli með honum hafi verið vændiskonur og að þau „örfáu“ kynlífspartí sem hann hefði tekið þátt í hefðu ekki verið „villt“. Þá sagði hann að þessar kynlífsveislur hefðu verið alls tólf talsins, síðustu þrjú ár. 

Fram kemur í frétt AFP að allt bendi til þess að saksóknarar leggi til að fallið verði frá ákæru á hendur Strauss-Kahn í dag enda hafi þeir ekki verið vissir um að málið gegn honum stæðist. Á það féllst hins vegar ekki rannsóknardómarinn sem kom að rannsókn á starfsemi vændishringsins á sínum tíma og fór fram á að mál Strauss-Khan yrði einnig dómtekið. 

Í gær bættust tvær fyrrverandi vændiskonur í hóp þeirra sem hafa fallið frá einkamáli gegn Strauss-Khan og segja lögmenn að ástæðan sé sú að þær hafi einfaldlega ekki getað lagt fram nægar sönnur á málflutning sinn til þess að vinna málið. 

Ein þeirra kvenna sem hefur borið vitni gegn Strauss-Kahn er fyrrverandi vændiskona, Jade að nafni. Hún lýsti því í réttarsalnum hvernig Strauss-Kahn hafi boðið henni að skoða höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington í janúar 2010. Strauss-Kahn þrætti fyrir rétti í síðustu viku um hennar hlut og sagði að ef hann hefði vitað að hún væri vændiskona þá hefði hann örugglega ekki boðið henni í heimsókn á vinnustað sinn enda hafi hann haft annað að gera á þessum tíma, það er hann hafi verið á bólakafi í að bjarga heiminum undan fjármálakreppunni.

En Jade segir að miðað við kynferðislega hegðun DKS gagnvart henni þá ætti að vera ljóst að hann hafi vel vitað við hvað hún starfaði. Því enginn kæmi svona fram við konu nema hún væri vændiskona. Svo lýsti hún því hvernig hann þvingað hana til endaþarmsmaka án þess að fá hjá henni leyfi. Hún hafi verið niðurlægð án þess að hafa nokkuð um það að segja.

Strauss-Kahn sagði við réttarhöldin að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún hafi verið þessu andsnúin og sagði að sér þætti það leitt ef hennar upplifun væri með þessum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert