Danir ætla að efla öryggislögregluna

Helle Thorning Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur.
Helle Thorning Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur. EPA

Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, hefur kynnt tólf nýjar aðgerðir sem danska ríkisstjórnin hyggst koma í framkvæmd í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi.

Ríkisstjórnin hefur í hyggju að verja 970 milljónum danskra króna, sem jafngildur tæplega tuttugu milljörðum íslenskra króna, í átakið á næstu fjórum árum.

Aðgerðirnar miða fyrst og fremst að því að efla öryggislögregluna, PET. Til dæmis á að auka á möguleika hennar til að fylgjast með glæpamönnum sem og einstaklingum sem eru grunaðir um að styðja hryðjuverkastarfsemi í landinu.

Jafnframt eru áætlanir um að fjölga lífvörðum á vegum öryggislögreglunnar og er markmiðið að vernda fólk sem er talið líklegt til að verða fyrir árásum hryðjuverkamanna. Danska lögreglan á einnig að fá aðgang að viðeigandi upplýsingum flugfélaga um farþega.

Forsætisráðherrann sagði á blaðamannafundi í gær að til stæði að auka samstarfið við yfirvöld í öðrum löndum í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi og auka einnig fyrirbyggjandi aðgerðir, meðal annars í Mið-Austurlöndum og norðurhluta Afríku.

Hún áréttaði þó að þetta væru ekki síðustu aðgerðir sem danska ríkisstjórnin myndi grípa til. Mikilvægt væri að vera vel á verði enda tæki hryðjuverkaváin sífelldum breytingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert