Gátu hlerað síma út um allan heim

Innbrot njósnastofnanna í kerfi Gemalto og stuldur á dulmálslyklum gerir …
Innbrot njósnastofnanna í kerfi Gemalto og stuldur á dulmálslyklum gerir þeim kleift að hlera símtöl og komast yfir gögn úr farsímum út um allan heim. EPA

Bandarískir og breskir njósnarar brutu sér leið inn í kerfi stærsta framleiðanda sim-korta í heiminum, sem gerði það að verkum að þeir höfðu aðgang að milljörðum farsíma út um allan heim.

Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna og breska öryggis- og leyniþjónustan GCHQ brutu sér leið inn í kerfi Gemalto, hollensks framleiðanda sim-korta, og stálu dulmálslyklum sem gerðu þeim kleift að fylgjast með símtölum og gögnum í símum út um allan heim.

Þetta kemur fram í skjölum frá uppljóstraranum Edward Snowden, sem birt voru af The Intercept. Fram kemur í Guardian að um sé að ræða brot á alþjóðlalögum.

Mark Rumold, lögmaður hjá Electronic Frontier Foundation, segir engan vafa á að hollensk lög hafi verið brotin, og líklega lög í fjölda annarra landa þegar dulmálslyklarnir voru notaðir. „Þeir virka eins og húslyklar,“ segir hann og bendir á að notkun þeirra varði friðhelgi einkalífsins, ekki bara í Bandaríkjunum, heldur út um allan heim.

Líklegt þykir að uppljóstrunin muni hafa áhrif á samskipti ríkja, en ríkisstjórn Barack Obama mætti mikilli gagnrýni í kjölfar fyrri leka Snowden, en þá kom m.a. í ljós að NSA hefði hlerað síma Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

Gemalto framleiðir 2 milljarða sim-korta á ári, m.a. fyrir AT&T, T-Mobile og Verizon. Fyrirtækið er með starfsemi í 85 löndum og sér 450 aðilum fyrir kortum. Stjórnendur fyrirtækisins höfuð ekki orðið varir við að brotist hefði verið inn í kerfi þeirra.

Guardian hefur eftir Chris Soghoian, tæknisérfræðingi hjá American Civil Liberties Union, að dulmálslyklarnir gætu t.d. gert njósnurum kleift að koma upp loftneti í sendiráði í Berlín og hlusta á öll símtöl í nágrenninu.

Nánar má lesa um málið hjá Guardian og Intercept.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka