Tveir þingmenn voru á meðal þeirra tuttugu og fimm sem létust í sjálfsmorðssprengjuárásum íslömsku öfgasamtakanna al-Shabab á hótel í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu í gær. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar sátu á fundi á hótelinu þegar árásirnar voru gerðar.
Einn hryðjuverkamaður ók bíl á hlið hótelsins og spengdi hann upp en annar sprengdi sjálfan sig í loft upp inni í hótelinu, að því er kom fram í tilkynningu frá Omar Abdirashid Ali Sharmarke, forsætisráðherra landsins.
Al-Shabab hefur lýst yfir ábyrgð á ódæðinu en samtökin hafa staðið fyrir fjölda árása í landinu undanfarið. Samtökin réðu stórum hluta höfuðborgarinnar á árunum 2007 til 2011 en liðsmenn þeirra voru hraktir þaðan og frá öðrum stórum borgum af sveitum Afríkubandalagsins.
Þetta var önnur árásin á hótel í höfuðborginni á innan við mánuði. Þrír heimamenn féllu þegar sjálfsmorðssprengjumaður sprengdi bíl í loft upp við hlið annars hótels í borginni 22. janúar.