Afþakkaði aðstoð múslíma

Gyðingar og múslímar tóku höndum saman á laugardag í Ósló.
Gyðingar og múslímar tóku höndum saman á laugardag í Ósló. EPA

Foringi öfgasamtakanna Pegida í Noregi afþakkaði um helgina aðstoð ungra múslíma við að hreinsa veggi bókaverslunar hans og rúður en einhverjir höfðu krotað þar „nasistasvín“.

„Ég vil ekki táknrænar aðgerðir heldur nýja löggjöf varðandi hælisleitendur og innflytjendur,“ segir Max Hermansen í viðtali við norska ríkisútvarpið. Hermansen fór fyrir fyrstu göngu Pediga, „evrópskra föðurlandsvina gegn íslamsvæðingu Vesturlanda“ í Ósló í síðasta mánuði.

Það voru fjórir ungir múslímar sem buðu fram aðstoð sína við að þrífa bókabúðina eftir að fréttir bárust af skemmdarverkunum í gærmorgun. 

Á laugardag tóku á annað þúsund múslímar þátt í að mynda friðarhring í kringum bænahús gyðinga í Ósló og næsta laugardag verður myndaður slíkur hringur í kringum helstu moskuna í Ósló, Central Jamaat Ahle Sunnat við Motzfeldtsgötu.

Hermansen hefur kvartað sáran yfir því hvernig brugðist hafi verið við því að hann varð leiðtogi Pegida í Noregi. Meðal annars  hafi honum verið sagt upp sem þjálfara vegna skoðana sinna.

AFP
AFP
EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka