Stjórnvöld í Ástralíu ætla að herða reglur sem gilda um ríkisborgararétt og eins gagnvart þeim sem verða uppvísir að tengslum við hryðjuverkastarfsemi. Til að mynda er ekki útilokað að þeir sem eru með tengsl við hryðjuverkastarfsemi verði sviptir ríkisborgararétti.
Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, kynnti áætlanir ríkisstjórnarinnar þar að lútandi í dag. Þetta beinist einkum að þeim sem hafa fengið ástralskan ríkisborgararétt en þeir sem eru fæddir í Ástralíu eiga einnig á hættu að missa hluta réttinda sinna í landinu verði þeir uppvísir að tengslum við hryðjuverkastarfsemi, samkvæmt frétt BBC.
Varað hefur verið við því að hætta sé á auknum ógnum í landinu af hálfu hryðjuverkamanna. Talið er að tugir Ástrala taki nú þátt í starfsemi Ríki íslams í Sýrlandi og Írak. Óttast er hvað gerist þegar þeir snúa aftur til heimalandsins.