Í nýju myndbandi, sem á að koma frá sómölsku hryðjuverkasamtökunum al-Shabab, eru múslímar hvattir til þess að ráðast á Oxford stræti og Westfield Stratford verslunarmiðstöðina í Lundúnum. The Independent segir frá þessu.
Sérfræðingar lögreglu rannsaka nú myndbandið og hefur það verið tengt við al-Shabab, en þau samtök eru líklega þekktust fyrir hryðjuverkaárás á Westgate verslunarmiðstöðina í Naíróbí í Kenía, í september 2013. Þar létust 67 í árásinni sem stóð yfir í nokkra daga.
Í myndbandinu var sagt frá því að sú árás hafi verið hefnd vegna hernaðaraðgerða kenískra stjórnvalda í Sómalíu. Myndbandið er 76 mínútna langt og sýnir búta úr fréttum af árásinni en inn á milli talar maður sem hylur andlit sitt.
Í síðustu viku létust 25 manns í sjálfsmorðsárásum samtakanna á hótel í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu í gær. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar sátu á fundi á hótelinu þegar árásirnar voru gerðar. Í nóvember á síðasta ári myrti hópurinn 28 manns í rútu eftir að þeim tókst ekki að fara með vers úr Kóraninum. Hafa samtökin jafnframt lýst yfir ábyrgð sinni á tugum morða við strönd Kenía síðustu mánuði.
Í myndbandinu varar maðurinn við fleiri árásum í Kenía en einnig í Bretlandi og Norður-Ameríku. Ásamt því að vara við árásum í Lundúnum nefnir hann verslunarmiðstöðina Mall of America í Minneapolis og West Edmonton verslunarmiðstöðina í Alberta í Kanada.
Öryggi hefur verið hert í bæði Mall of America og í West Edmonton eftir að fregnir af myndbandinu bárust.