Lögregla hefur rætt við skólasystkin bresku stúlknanna þriggja, sem taldar eru á leið til Sýrlands til að slást í lið við Ríki íslam. Lögreglumennirnir eru hluti stuðningsteymis sem kallað var til eftir að stúlkurnar hurfu í síðustu viku.
Skólameistari Bethnal Green Academy í austurhluta Lundúna sagði í samtali við blaðamenn að samkvæmt lögreglu benti ekkert til þess að stúlkurnar hefðu orðið fyrir áhrifum öfgahyggju innan veggja skólans.
„Það er ljóst að þetta er alþjóðlegt viðfangsefni sem er að vaxa að alvarleika og hefur áhrif í skólum víðsvegar um landið og víðar,“ sagði Mark Keary.
Kadiza Sultana, 16 ára, og Shamima Begum og Amira Abase, 15 ára, yfirgáfu heimili sín í síðustu viku og flugu til Istanbul, en talið er að þær hyggist ferðast til Sýrlands til að ganga til liðs við Ríki íslam.
Um 500 breskir ríkisborgarar eru taldir hafa ferðast til Írak og Sýrlands til að leggja hryðjuverkasamtökunum lið.
Sultana og Begum eru breskir ríkisborgarar en Abase er með ríkisfang í Þýskalandi. Stúlkurnar voru allar vinkonur annars nemanda sem fór til Sýrlands í desember síðastliðnum. Talið er að um 550 konur frá Vesturlöndum hafi ferðast til Sýrlands í þeim tilgangi að ganga til liðs við Ríki íslam.
Skólameistarinn sagði forgangsatriði að skólastarf héldi áfram með hefðbundnum hætti.
Lögregla og fjölskyldur stúlknanna hafa biðlað til þeirra um að snúa aftur heim, en fyrrnefndu hafa sætt gagnrýni fyrir að láta viðvörunarmerki fram hjá sér fara. Svo virðist sem einhver hafi notað Twitter-aðgang í nafni Begum til að hafa samband við Aqsa Mahmood, konu frá Glasgow, sem fór til Sýrlands í fyrra til að giftast liðsmanni Ríkis íslam.
Bresk yfirvöld hafa sótt fólk til saka fyrir að leggja drög að því að ganga til liðs við samtökin og þá hafa vegabréf verið tekin af fólki í krafti nýrrar löggjafar sem samþykkt var í þessum mánuði.