Um 10 prósent fleiri Bretar vilja vera áfram innan Evrópusambandsins en utan þess, samkvæmt nýrri könnun. Stuðningur við ESB hefur ekki áður mælst jafn mikill. Þetta kemur fram í frétt á vefnum Euobserver.
Samkvæmt könnuninni, sem birt var í dag, vilja 45% aðspurðra vera áfram í ESB á meðan 35% vilja yfirgefa bandalagið. Þetta er niðurstaða könnunar YouGov og hefur stuðningur við ESB aldrei mælst jafn mikill og nú síðan farið var að gera þessar kannanir mánaðarlega í september 2010.
Í síðasta mánuði mældist stuðningur við ESB 42% sem er mikil breyting frá því þegar evrukreppan var sem dýpst á árunum 2011 og 2012. Á þeim tíma vildi meirihluti Breta yfirgefa ESB. Í maí 2012 mældist stuðningurinn ekki nema 28% en þá studdu 51% aðspurða útgöngu úr ESB.
Á vef Euobserver kemur fram að í greiningu YouGov komi fram að aukinn stuðningur Breta við aðild að ESB speglist í aukinni trú á efnahagsástandið í evru-ríkjunum sem og Bretlandi.