Fyrrum poppstjarnan Gary Glitter hefur verið dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir að brjóta kynferðislega gegn þremur ungum stúlkum á árunum 1975 til 1980.
Glitter var fundinn sekur fyrir tilraun til nauðgunar, kynferðisbrot og fyrir að nauðga 12 ára gamalli stúlku.
Við dómsuppkvaðninguna í dag sagði dómarinn Alistair McCreath að hann hafi ekki fundið neinar sannanir á því að Glitter, sem heitir í raun Paul Gadd, hafi bætt fyrir glæpi sína.
Glitter, sem er sjötugur, sýndi lítil geðbrigði er hann yfirgaf dómsalinn í dag. Bætti dómarinn við að brot Glitter hafi haft gífurleg áhrif á öll hans fórnarlömb.
Eins og fram hefur komið í fyrri fréttum var Glitter dæmdur sekur fyrr í mánuðinum fyrir að brjóta á þremur ungum stúlkum. Ein þeirra var yngri en tíu ára þegar hann braut gegn henni og hinar tvær tólf og þrettán ára.
Árið 1975 skreið Glitter upp í rúm til yngstu stúlkunnar og reyndi að nauðga henni. Braut hann gegn eldri stúlkunum tveimur eftir að hafa boðið þeim inn í búningsherbergi sitt. Eiga brotin að hafa átt sér stað á hápunkti ferils Glitter.
Glitter hefur ætíð neitað sök.