Ræddi um Pútín stuttu fyrir dauða sinn

Boris Nemtsov, sem var skotinn til bana í Rússlandi í gær, var í útvarpsviðtali stuttu fyrir árásina í gær. Þar ræddi hann það sem hann kallaði „árásargjarna utanríkisstefnu Pútíns og greindi frá fyrirhuguðum mótmælum gegn hernaðarbrölti Pútíns í Úkraínu. 

Þeir sem rannsaka morðið telja það bera öll einkenni leigumorðs, samkvæmt dagblaðinu The Telegraph. Vinir Nemtsovs segja hann hafa verið að vinna að skýrslu sem sýnir stuðning rússneskra stjórnvalda við aðskilnaðarsinna í Úkraínu. 

„Helsta ástæðan fyrir erfiðleikunum í Rússlandi núna er ákvörðun Pútíns um að fara í stríð við Úkraínu, sem er ótrúlega árásargjörn aðgerð og gæti reynst þjóðinni okkar banabiti,“ sagði Nemtsov í síðasta viðtali sínu og bætti við: „Það hefur verið sannað að það hafa verið rússneskir hermenn að störfum í Úkraínu.“

Síðasta Twitter-færsla Nemtsovs var kynning á mótmælagöngu sem halda átti í Rússlandi, gegn íhlutun Rússa í Úkraínu. 

Eftir útvarpsviðtalið fyrr um daginn fór Nemtsev svo og hitti kærustu sína, hina 23 ára gömlu úkraínsku fyrirsætu Anna Duritskayu áður en þau gengu saman í átt að heimili þeirra. Duritskaya særðist ekki í árásinni en henni var strax ekið á brott af lögreglu. 

Fjórar byssukúlur hæfðu Nemtsev, en talið er að alls sjö kúlum hafi verið hleypt af. Vitni segja að allt hafi gerst hratt, og að kúlurnar hafi einhverjar farið íbrjóstkassann á vinstri hlið líkama stjórnmálamannsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert