Obama fordæmir morðið á Nemtsov

Boris Nemtsov heldur ræðu árið 2012.
Boris Nemtsov heldur ræðu árið 2012. EPA

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur fordæmt morðið á rússneska stjórnmálamanninum Boris Nemtsov. Nemtsov er einn af þeim sem gangrýnt hafa Vladimír Pútín forseta landsins hvað mest og eru margar kenningar uppi um tilgang morðsins. 

„Rússnesk yfirvöld verða strax að hefja hlutlausa rannsókn á málinu og sjá til þess að þeir sem eru ábyrgir fyrir morðinu, náist,“ segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu. 

Nemtsov var skotinn fjórum sinnum þar sem hann var á gangi nálægt Kreml og Rauða torginu. Nokkrir menn munu hafa stigið út úr bíl og skotið Nemtsov. 

Garry Kasparov, margfaldur heimsmeistari í skák og fyrrum forsetaframbjóðandi í Rússlandi vottaði Nemtsov virðingu sína á Twitter-síðu sinni í gær. 

Utanríkisráðherra Noregs, Børge Brende, tók í dag í sama streng og Obama. „Morðið á Nemtsov er harmleikur sem Noregur fordæmir. Nemtsov var mikilvæg og hugrökk rödd í stjórnarandstöðunni í Rússlandi, ekki síst í baráttu sinni gegn spillingu,“ segir Brende í samtali við dagblaðið Verdens gang. Hann biðlar til rússneskra yfirvalda að rannsaka málið sem fyrst. 

„Morðið segir töluvert um þróunina í landinu þar sem lýðræðissinnar þurfa að gjalda fyrir baráttu sína með lífi sínu. Noregur biðlar til Rússa að hefja strax óháða rannsókn,“ bætir Brende við. 

Margir Rússar heimsóttu í dag staðinn þar sem Nemtsov var …
Margir Rússar heimsóttu í dag staðinn þar sem Nemtsov var skotinn til bana í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka