Frjálslyndi kjarnorkufræðingurinn sem andmælti Pútín

Augu heimsins hvíla nú á Moskvu þar sem fram fer minningarathöfn um rússneska stjórnarandstæðinginn Boris Nemtsov sem skotinn var til bana nálægt Kreml á föstudaginn.

Nemtsov er þekktastur fyrir andstöðu sína við ríkisstjórn Vladimirs Pútín. Segja má að hann hafi sjálfur skipulagt eigin minningarathöfn því upprunalega átti hún að vera fjöldamótmæli gegn Pútín sem Nemtsov hugðist leiða.

Nemtsov var 55 ára gamall og lætur eftir sig fjögur börn. Hann var kjarnorkufræðingur að mennt og náttúruverndarsinni. Hann komst fyrst til áhrifa undir Boris Jeltsín og gegndi hann um tíma stöðu aðstoðarforsætisráðherra í ríkistjórn hans.

Nemtsov yfirgefur kjörklefa árið 2012.
Nemtsov yfirgefur kjörklefa árið 2012. AFP

Handtekinn fyrir mótmæli

Eftir að hann hætti þingstörfum árið 2003 stofnaði Nemtsov nokkrar stjórnarandstöðuhreyfingar og var m.a. varaformaður Repúblíkanaflokks Rússlands – Frelsisflokksins frá árinu 2012 en sá er helsti stjórnarandstöðuflokkur Rússlands. Nemtsov var áberandi og hávær andstæðingur PútínS og fordæmdi hann m.a. fyrir hlut Rússlands í stríðsástandinu í Úkraínu, efnahagsástand landsins og meinta spillingu í kringum undirbúning Ólympíuleikanna í Sochi árið 2014.

Nemtsov lék mikilvægt hlutverk í stórum mótmælagöngum sem fram fóru í Moskvu árið 2011 í kjölfar kosninga í landinu en þá var flokki hans, Parnas, meinað að taka þátt í þingkosningum. Nemtsov var handtekinn í kjölfarið og gert að sæta gæsluvarðhaldi í 15 daga.

Hin frjálslynda stjórnarandstöðuhreyfing Rússlands er brotakennd og Nemtsov var ekki alltaf sammála öðrum leiðtogum hennar. Árið 2011 komu upptökur fram á sjónarsviðið þar sem hann kallaði fylgjendur hreyfingarinnar hamstra og hræddar mörgæsir en upptökurnar höfðu þó ekki mikil áhrif á fylgi hans eða samheldni innan hreyfingarinnar.

Fjöldi manna kom saman í Moskvu í dag í minningargöngu …
Fjöldi manna kom saman í Moskvu í dag í minningargöngu fyrir Nemtsov. AFP

Kreppan kostaði hann starfið

Nemtsov bauð sig fyrst fram til embættis, án árangurs, árið 1989 en hann var kosinn á rússneska þingið árið 1990. Nemtsov studdi Boris Jeltsín þegar tekist var á um réttmæti hans sem forseta árið 1991 í kjölfar upplausnar Sovétríkjanna og Jeltsín launaði honum með því að gera hann að landstjóra í borginni Nizhny Novgorod.

Nemtsov varð fljótlega einn mest áberandi stjórnmálamaður Rússlands og var því jafnvel velt upp af stjórnmálaskýrendum að Jeltsín sæi hann sem eftirmann sinn. Jeltsín gerði Nemtsov að aðstoðarforsætisráðherra árið 1997 og setti hann yfir efnahagsumbætur í landinu. Nemtsov átti eftir að sjá eftir að hafa tekið stöðunni þar sem hún var á margan hátt upphafið að hnignun stjórnmálaferils hans. Hafi Nemtsov gert sér vonir um að verða forseti Rússlands í brjósti voru þær úti aðeins ári eftir að hann tók embætti því efnahagskreppan árið 1998 kostaði hann starfið.

Árið 1999 stofnaði Nemtsov flokkinn Samband hægri aflanna ásamt Anatoly Chubais og Jegor Gaidar sem einnig hneigðust til frjálslyndis. Upphaflega gekk flokknum ágætlega. Fékk hann 10% fylgi í þingkosningum í desember það ár og gat tekið þátt í að mynda áhrifaríka blokk innan rússneska þingsins. En þegar viðmót flokksins gagnvart hinum nýja forseta Rússlands, Vladimir Pútín, tók að þróast frá stuðningi með skilyrðum yfir í opinskáa andstöðu missti flokkurinn fylgjendur. Árið 2003 náði flokkurinn ekki því 5% fylgi sem til þurfti og komst ekki á þing. Nemtsov sagði af sér sem leiðtogi flokksins og reyndi fyrir sér í viðskiptum ásamt því að gera árangurslausar tilraunir til að sameina frjálslynda Rússa sem tvístruðust í kjölfar kosningaklúðursins.

Nemtsov varð aftur að einu helsta andliti stjórnarandstöðunnar árið 2011 eftir að hafa lifað utan kastljóssins í nokkur ár. Þrátt fyrir að ekki hafi verið litið á hann sem beinan þátttakanda í meginstraumi rússneskra stjórnmála um nokkurt skeið hefur morðið á honum skilið marga samlanda hans eftir í losti.

Nepstov tekst á við lögreglumenn í mótmælagöngu árið 2009.
Nepstov tekst á við lögreglumenn í mótmælagöngu árið 2009. EPA

Blóðsúthellingar óumflýjanlegar

Kreml hefur borið af sér allar ásakanir um þátttöku í morðinu og bent til Ríkis íslams og aðskilnaðarsinna í Úkraínu, auk þess sem því hefur verið fleygt fram að morðið gæti hafa verið „sviðsett“ til að koma óorði á stjórnvöld og gera Nemtsov að píslarvotti. Margir efast þó um sakleysi stjórnvalda og mun án efa verða litið á dauða Nemtsov sem skilaboð til andstæðinga Pútíns um hvaða örlög bíði þeirra sem gagnrýna um of.

Skákmeistarinn Garry Kasparov, sem hefur einnig gagnrýnt rússnesk stjórnvöld af miklum móð, segir að blóðsúthellingar séu óumflýjanlegar í andrúmslofti haturs og ofbeldis sem Pútín skapar. Hann segir skilaboðin skýr. „Andmæltu Pútín og líf þitt er lítils virði“.

Lík Nemstov var ljósmyndað í bak og fyrir, bæði áður …
Lík Nemstov var ljósmyndað í bak og fyrir, bæði áður og eftir að lögregla hafði komið því fyrir í svörtum umbúðum. AFP
Nemtsov og Pútín takast í hendur árið 2000.
Nemtsov og Pútín takast í hendur árið 2000. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka