Tugir þúsunda manna ganga á staðnum

Hópur evrópskra sendiherra leggur blóm á staðinn þar sem Nemtsov …
Hópur evrópskra sendiherra leggur blóm á staðinn þar sem Nemtsov var myrtur. EPA

Talið er að tugir þúsunda manna muni flykkjast á götur Moskvu í dag til að heiðra minningu stjórnarandstæðingsins Boris Nemtsov sem var skotinn til bana á föstudag. Samkvæmt fréttastofu BBC átti Nemtsov að leiða mótmælagöngu í dag en þess í stað verður gangan tileinkuð minningu hans.

Forseti Rússlands, Vladimir Pútín, hefur fordæmt morðið og heitið að draga hina seku til ábyrgðar. Fylgismenn Nemtsov telja að hann hafi verið myrtur vegna andstöðu sinnar við Pútín og afskipti hans af Úkraínudeilunni en talsmenn Kreml hafa gefið í skyn að morðið sé ætlað til þess að varpa skugga á ríkisstjórnina og gera Nemstov að píslarvotti.

Áætlað er að stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar hittist í miðborg Moskvu um klukkan tvö á rússneskum tíma og gangi á staðnum á Moskvoretsky brúnni þar sem Nemtsov var myrtur. Yfirvöld í Moskvu höfðu áður gefið leyfi fyrir því að allt að því 50 þúsund manns tækju þátt í mótmælunum en skipuleggjendur segja líklegt að enn fleiri muni mæta vegna morðsins.

Heilt fjall af blómum er nú að finna á brúnni og segir BBC blómahafið vera um metri á hæð og tveir metrar á breiddina. Á spjöldum við blómin stendur meðal annars „Við erum öll Nemtsov“ og „Je Suis Boris“ en þar er vísað til skotárásarinnar á franska miðilinn Charlie Hebdo. Á einu skilti stendur skrifað með rauðu letri „Boris, þeir hræddust þig“.

Ljósmyndir og kerti sjást víða á brúnni.
Ljósmyndir og kerti sjást víða á brúnni. EPA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert