Allt gert til að finna þá seku

Lavrov var viðstaddur setningu þings Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf …
Lavrov var viðstaddur setningu þings Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf í dag. AFP

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir morðið á stjórnarandstöðuleiðtoganum Boris Nemtsov „svívirðilegan glæp“ og heitir því að málið verði rannsakað til fulls. Lavrov var viðstaddur setningu árlegs þings Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf í dag og sagði að allt yrði gert innan ramma laganna til að finna morðingjana.

„Pútín forseti gaf umsvifalaust öll fyrirmæli og mun tryggja sérstakt eftirlit með rannsókninni,“ sagði utanríkisráðherrann, en yfirlýsingar um þátt forsetans í rannsókninni hafa lítið gert til að lægja öldur, þar sem Nemtsov var harður gagnrýnandi Pútíns og sagðist fyrir skömmu óttast að verða myrtur að frumkvæði forsetans.

Lavrov átti fund með kollega sínum John Kerry í Genf, þar sem ráðherrarnir ræddu stöðu mála í Úkraínu. Lavrov sagði áhyggjuefni að svo virtist sem öfgahópar í landinu sæktu í sig veðrið, en það er mögulega tilvísun til öfgasamtakanna Right Sector, sem hafa barist við hlið stjórnarhersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert