Um 30 þúsund íraskir hermenn taka þátt í árásum á og við borgina Tikrit sem er undir yfirráðum Ríkis íslams. Um er að ræða viðamestu aðgerð Írakshers í að reyna að endurheimta borgina úr höndum skæruliðasamtakanna.
Tikrit er í 150 km fjarlægð norður af höfuðborginni Bagdad og hefur Ríki íslams ráðið yfir borginni frá því í júní í fyrra. Ríki íslams, samtök íslamista, hefur náð svæðum í Sýrlandi og Írak á sitt vald en fjölmargir erlendir herir taka nú þátt í því að reyna að brjóta á bak aftur framgang skæruliðanna.
Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, átti fund með herforingjum í her landsins í Salahuddin-héraði áður en þeir lögðu af stað í bardagann. Þar bauð hann öllum þeim súnní-múslímum sem berjast með Ríki íslams sakaruppgjöf ef þeir myndu yfirgefa samtökin. Tók hann fram að þetta væri þeirra síðasti möguleiki á að fá slíka sakaruppgjöf.
Herforingi sem AFP-fréttastofan ræddi við í morgun segir að herinn beini aðgerðum sínum á þrjá staði, Ad-Dawr, úr suðri, Al-Alam, úr norðri og Tikrit. Reynt verður að koma í veg fyrir að liðsmenn Ríkis íslams nái að forða sér á flótta frá Tikrit, heimaborg fyrrverandi forseta landsins, Saddams Hussein, en borgin er eitt helsta vígi Ríkis íslams í Írak.
Hermenn fundu Hussein við bóndabæ 15 kílómetra suður af heimaborg hans, Tikrit, í desember 2003. Þar faldist hann í jarðhýsi, sem rétt nægði til að fullorðinn maður gæti lagst þar fyrir. Dýptin á holunni var um 2 metrar. Niður í hana varð ekki komist nema opna hlera í jörðinni, en hann var falinn með mottu, múrsteinum og jarðvegi. Loftventill veitti Saddam nægt súrefni til að lifa af í holunni.
Einræðisherrann var fúlskeggjaður og skítugur í felustað sínum. Hann var vopnaður, en gerði enga tilraun til að verjast. Saddam Hussein var leiddur fyrir rétt í Bagdad árið 2005. Réttarhöldin stóðu í heilt ár, en þá var hann dæmdur til dauða. Hann var hengdur 30. desember 2006.
Í grein sem Bogi Þór Arason skrifaði í Morgunblaðið í lok september í fyrra kemur fram að samtökin Ríki íslams komu fram á sjónarsviðið í Írak árið 2006 og kenningar þeirra eiga rætur að rekja til svonefndra wahabíta, íslamsks strangtrúarflokks súnníta sem kom fram í Sádi-Arabíu á átjándu öld.
Eins og íslamistarnir, sem hafa náð stórum svæðum í Sýrlandi og Írak á sitt vald, urðu wahabítarnir fljótlega illræmdir fyrir að drepa unnvörpum þá sem ekki vildu sætta sig við túlkun þeirra á kennisetningum Múhameðs spámanns. Wahabítar leggja áherslu á skyldu múslíma til að hjálpa fátækum en einnig á fyrirmæli eins og þau að konur skuli standa skör lægra karlmönnum, eigi að hylja sig kufli og megi ekki aka bíl. Konungsfjölskyldan í Sádi-Arabíu hefur alltaf stutt wahabíta sem urðu því mjög áhrifamiklir þegar konungsríkið var stofnað árið 1932.
Stjórnvöld í arabaríkjunum við Persaflóa hafa lagst gegn samtökum íslamistanna sem hafa lýst yfir stofnun kalífadæmis á yfirráðasvæðum sínum í Sýrlandi og Írak. Ráðamennirnir í arabaríkjunum óttast að samtökin fái marga íbúa landanna til liðs við sig og ráðist jafnvel á þau. Arabaríkin hafa því tekið þátt í loftárásum Bandaríkjahers á liðsmenn samtakanna.
Ofbeldi vígasveita íslamistanna í Sýrlandi og Írak hefur einkennst af skefjalausri grimmd. Vígamennirnir hafa herjað á aðra trúarhópa, svo sem kristna menn og sjíta og jafnvel súnníta sem sætta sig ekki við túlkun þeirra á boðskap Múhameðs spámanns. Vígasveitirnar hafa framið fjöldamorð, pyntað og hálshöggvið fólk og tugum þúsunda „trúleysingja“ hefur verið stökkt á flótta. Þeir sem ekki vilja ganga til liðs við þá eða viðurkenna ekki kenningar þeirra eru álitnir réttdræpir óvinir.
Leiðtogar Ríkis íslams líta jafnvel á aðra íslamista sem villutrúarmenn og þar með óvini sína. Til að mynda hatast þeir við leiðtoga Hamas-samtaka Palestínumanna sem stefna að því að stofna íslamskt ríki í allri Palestínu. Þeir telja leiðtoga Hamas verðskulda dauðarefsingu vegna þess að þeir sömdu um vopnahlé við Ísraela.