Gríman féll og dulúðin hvarf

Mohammed Emwazi, áður kallaður Jihadi John.
Mohammed Emwazi, áður kallaður Jihadi John.

Eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum árið 2001 óttuðust flestir að hryðjuverkamenn myndu beita gereyðingarvopnum til að ráðast á borgir og fella sem flesta. Fáum datt í hug að beittasta vopn þeirra yrði maður vopnaður hnífi og myndbandsupptökuvél.

Búið er að afhjúpa „Jihadi John“, manninn sem hefur ítrekað tekið fanga Ríkis íslams af lífi fyrir framan myndavél. Talað hæðnislega með sínum breska hreim, með hníf í hönd og grímu fyrir andlitinu. Hann er bæði dómari og böðull. Að lokinni pólitískri einræðu hefur hann ekki hikað við að drepa fangana, með frumstæðri aðferð. Eftir liggja höfuð gíslanna við fætur hans.

Myndböndin eru unnin af fagmennsku. Þeim er dreift sem víðast til að framkalla það sem Ríki íslams ætlar sér: Ótta meðal fólks um alla heimsbyggðina. 

En nú hefur hann misst mjög mikilvægan þátt í hinu hrottafengna leikriti sínu. Hann er ekki lengur dularfulli maðurinn með hnífinn. Hann hefur nafn: Mohammed Emwazi. Og við vitum meira um hann. Hann er á þrítugsaldri, menntaður Lundúnabúi úr millistétt sem snérist gegn Bretlandi, landinu sem hafði lengi fóstrað hann eða allt frá því hann var drengur og fluttist þangað frá Kúveit.

Hugsanlega mun afhjúpunin á því hver hann er breyta öllu. Nú hafa fjölmiðlar birt mynd af manninum Mohammed, svolítið sérkennilegum ungum manni með alltof stóra hafnaboltahúfu á höfði. Hann er bara eins og hver annar ungur maður - dulúðin hefur verið tekin frá honum. Áhorfendur sjá því bak við grímuna og þó að morð hans séu ógeðsleg er búið að fletta ofan af morðingjanum. 

Í fréttaskýringu AP-fréttastofunnar um málið er því m.a. velt upp hvort Emwazi verði nú ekki skotmark þeirra sem berjast gegn Ríki íslams í Sýrlandi og víðar. Hann verður væntanlega leitaður uppi, hundeltur. Þar með er ekki víst að hann nýtist lengur í baráttunni fyrir málstað Ríkis íslams. Hann er hugsanlega orðinn baggi á samtökunum, ekki fengur.

AP-fréttastofan hefur m.a. eftir Magnus Ranstorp, sænskum hryðjuverkasérfræðingi, að líklega muni draga úr hlutverki Emwazi hjá Ríki íslams. Í hvert sinn sem hann mun tala í síma eykur hann hættuna á því að vera handsamaður. Hann gæti vel orðið skotmark í næstu loftárás. Hann yrði þá ekki sá eini sem myndi falla heldur allir sem væru nálægt honum. Ranstorp bendir einnig á að nú þegar búið er að afhjúpa hann gefi það almenningi von um að hann verði dreginn fyrir dómstóla og látinn svara til saka fyrir voðaverk sín.

„Þetta er því mikilvægt fyrir fjölskyldur fórnarlambanna,“ segir Ranstorp. „Þær vita nú að spjót yfirvalda munu beinast að ákveðnum manni og að á hverjum degi þurfi hann að óttast árás úr lofti. Hann er ekki lengur sá skaðvaldur sem hann var áður.“

En mál Emwazi hefur líka vakið spurningar um hvers vegna ungt fólk í Evrópu fer að aðhyllast öfgahópa og jafnvel yfirgefa heimalandið til að ganga til liðs við þá í fjarlægum heimshornum. Slík dæmi verða sífellt fleiri.

Vitað er að Emwazi fór til Sýrlands árið 2013, áður en samtökin Ríki íslams höfðu fest þar rætur og orðið útbreidd. Heimildir benda til þess að Emwazi hafi fyrst reynt að slást í hóp hryðjuverkasamtakanna al-Shabab í Sómalíu. Það hafi ekki gengið upp. Þau samtök báru m.a. ábyrgð á árásinni á verslunarmiðstöðina í Kenía fyrir nokkru.

Síðan þá hefur málstaður Ríkis íslams og fleiri öfgahreyfinga fengið byr undir báða vængi og nýliðar komið til liðs við samtökin víða að úr heiminum. Hreyfingarnar hafa lagt undir sig landsvæði og heitið því að þar muni farið að sharía-lögum. 

Viðbrögðin við yfirgangi öfgahreyfinga hafa m.a. verið þau að dregið hefur úr umburðarlyndi gagnvart múslímum, m.a. í Bretlandi. Það sýndi könnun sem BBC birti í vikunni. Þá hafa stjórnmálaflokkar í Evrópu aukið fylgi sitt í kjölfar yfirlýsinga um hertar aðgerðir gegn innflytjendum.

John Gearson, prófessor við King´s College í London, segir það enga tilviljun að „Jihadi John“ hafi talað með breskum hreim. Það sé hluti af áróðursstríði Ríkis íslams sem vilja að Bretar fái það á tilfinninguna að óvinurinn sé ekki einhver sem talar aðeins arabísku og býr í fjarlægu landi. Hann sé miklu heldur einn af strákunum þeirra. „En nú er dulúðin farin af honum. Hann er bara morðingi núna,“ segir Gearson við AP-fréttastofuna. 

Eitt er þó nokkuð víst. Liðsmenn Ríkis íslams eru eldklárir að nýta sér samfélagsmiðla til að skapa ótta meðal almennings. Það er því líklegt að þeir finni sér annan mann í verkið - nú þegar allir vita hver „Jihadi John“ raunverulega er.

Frétt mbl.is: Einfarinn sem vildi sjást á myndskeiðum

Mohammed Emwazi heldur pólitíska einræðu áður en hann sker fórnarlömb …
Mohammed Emwazi heldur pólitíska einræðu áður en hann sker fórnarlömb sín á háls. EPA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert