Verjandi Dzhokhar Tsarnaev, annars bræðranna tveggja sem stóðu að sprengjuárásinni í Boston maraþoninu, hefur viðurkennt sekt skjólstæðings síns. Réttarhöld yfir Tsarnaev hófust í dag, en hann á yfir höfði sér dauðarefsingu verði hann fundinn sekur.
Áður en verjendur Tsarnaev tóku til máls í dag, sagði saksóknarinn í málinu að Tsarnaev hefði haft „morð í hjarta sínu“ þegar hann kom sprengjunni fyrir. Árið 2013 lýsti Tsarnaev sig saklausan af öllum ákæruliðum, en þeir eru alls 30 talsins.
Fjölmörg fórnarlömb árásarinnar voru viðstödd réttarhöldin í dag. Þrír létu lífið þegar tvær sprengjur sprungu á meðan maraþonin stóð yfir í apríl 2013. Fleiri en 260 slösuðust og margir misstu útlimi.
Það kom viðstöddum nokkuð á óvart þegar verjandi Tsarnaev gekkst við því að hann hefði sannarlega staðið að árásinni. Saksóknarinn hóf hins vegar leikinn og lýsti því hvernig andrúmsloftið hefði verið mettað brennisteinslykt og öskrum fólks þennan örlagaríka dag.
Hann lýsti því einnig hvernig móðir hins 8 ára Martin Richard hefði horft bjargarlaus á þegar sprengjan tætti líkama sonar hennar. Martin lést í árásinni en foreldrar hans voru í dómsalnum í dag.
„Hann gerði það,“ sagði verjandinn Judy Clarke þegar saksóknarinn hafði lokið máli sínu. Hún sagði að verjendateymi Tsarnaev myndi ekki reyna að sneiða hjá sekt skjólstæðings síns, en sagði að þau myndu leitast við að sýna fram á að eldri bróðir hans, Tamerlan, hefði skipulagt árásina og þvingað yngri bróður sinn til þátttöku.