Hverjir dóu og hvernig?

Nafn Bor­is Nemt­sov, 55 ára, hef­ur bæst við lang­an lista stjórn­ar­and­stæðinga í Rússlandi sem hafa dáið með dul­ar­full­um hætti und­an­far­in ár.

Gagn­rýn­end­ur rúss­neskra stjórn­valda sem látið hafa lífið hafa fallið frá með ýms­um hætti og í flest­um til­fell­um eru morð þeirra óupp­lýst. Sum­ir hafa verið skotn­ir, fyr­ir aðra hef­ur verið eitrað og enn aðrir hafa verið hengd­ir. Þá eru dæmi um að þeim hafi verið neitað um lækn­is­meðferð í fang­elsi.

Ser­gei Yus­hen­kov

Stjórn­mála­maður­inn Ser­gei Yus­hen­kov, 52 ára, var myrt­ur við heim­ili sitt í Moskvu í apríl 2003. Hann var há­vær gagn­rýn­andi Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta og stofnaði ásamt fleir­um flokk­inn Li­ber­al Russia árið 2000. Aðeins fá­ein­um mánuðum fyr­ir morðið á Yus­hen­kov var ann­ar meðlim­ur flokks­ins skot­inn til bana og sagði Yus­hen­kov op­in­ber­lega að hann teldi morðið eiga rót sína í stjórn­mál­um. Li­ber­al Russia öðlaðist fyrst viður­kenn­ingu sem full­gild­ur og lög­leg­ur flokk­ur í Rússlandi aðeins nokkr­um klukku­tím­um áður en Yus­hen­kov var skot­inn margsinn­is í brjóst­kass­ann.

Yuri Shchekochik­hin

Í júlí sama ár lést þing- og rann­sókn­ar­blaðamaður­inn Yuri Shchekochik­hin eft­ir dul­ar­full veik­indi sem vöruðu í 16 daga.

Vitni lýs­ir veik­ind­un­um sem svo að Shchekochik­in hafi kvartað yfir þreytu og að rauðir blett­ir hafi birst á húð hans. Líf­fær­in gáf­ust síðan upp eitt af öðru og einnig missti hann allt hárið. Shchekochik­hin var þekkt­ur fyr­ir skrif sín um spill­ingu í land­inu og þó svo að lækn­ar segi hann hafa lát­ist vegna of­næmisviðbragða er fjöl­skylda hans sögð ef­ast og hafa reynt að fá frek­ari upp­lýs­ing­ar og skýrsl­ur án ár­ang­urs.

Paul Klebni­kov

Rann­sókn­ar­blaðamaður­inn Paul Klebni­kov, 41 árs, lést í júlí árið 2004. Hann var skot­inn fyr­ir utan höfuðstöðvar blaðsins For­bes í Moskvu. Klebni­kov hafði m.a. rann­sakað stríðið í Tétsn­íu. Enn hef­ur eng­inn verið dæmd­ur fyr­ir morðið.

Anna Polit­kovskaya

Í októ­ber 2006 var rann­sókna­blaðamaður­inn Anna Polit­kovskaya, 48 ára, skot­in til bana fyr­ir utan íbúð sína í Moskvu. Polit­kovskaya var einna þekkt­ust fyr­ir ákafa gagn­rýni á rík­is­stjórn­ina vegna stríðsins í Tétsn­íu. Morðið var sagt bera merki leigu­morðs. Poli­kovskaya hafði áður fengið hót­an­ir vegna frétta sinna auk þess sem marg­ir telja að áður hafi verið reynt að myrða hana árið 2004 þegar hún fékk skyndi­lega heift­ar­lega matareitrun.

Al­ex­and­er Lit­vin­en­ko

Aðeins mánuði síðar sama ár dó fyrr­ver­andi njósn­ar­inn Al­ex­and­er Lit­vin­en­ko, 43 ára, eft­ir að hafa drukkið te sem hafði verið blandað geisla­virku efni, póloni,­ á hót­eli í London. Sagt er að Lit­vin­en­ko hafi sinn­ast við Vla­dimír Pútín seint á tí­unda ára­tugn­um þegar sá síðar­nefndi var yf­ir­maður í rúss­nesku leyniþjón­ust­unni FSB. Lit­vin­en­ko starfaði við innra eft­ir­lit í rík­is­stofn­un­um og er sagður hafa eign­ast marga óvini í vinnu sinni við að koma upp um spill­ingu. Lit­vin­en­ko og Poli­kovskaya eru sögð hafa verið nán­ir vin­ir og unnið sam­an í bar­átt­unni gegn Kreml.

Lit­vin­en­ko varð fyrst áber­andi árið 1998 þegar hann kom upp um meint ráðabrugg um að myrða auðjöf­ur­inn Bor­is Berezov­sky. Hann var hand­tek­inn í kjöl­farið, sakaður um að hafa mis­notað vald sitt sem op­in­ber starfsmaður og eyddi níu mánuðum í fang­elsi. Síðar skrifaði hann bók þar sem hann hélt því fram að sprengju­árás á rúss­neska blokk sem tók líf yfir 300 manns hefði í raun verið skipu­lögð af FSB en ekki téts­nesk­um upp­reisn­ar­mönn­um eins og rúss­nesk yf­ir­völd halda fram. Lit­vin­en­ko flúði til Bret­lands árið 2000. Hann breytti reglu­lega um heim­il­is­fang og síma­núm­er en árið 2005 var gerð til­raun til að ýta vagni full­um af bens­ín­sprengj­um inn á heim­ili hans. Lit­vin­en­ko hélt áfram að tala gegn rúss­nesku rík­is­stjórn­inni allt til dauðadags.

Na­talia Estem­irova

15. júlí 2009 var Na­taliu Estem­irova, 50 ára, rænt og fannst hún lát­in nokkr­um klukku­stund­um síðar. Hún var öt­ull bar­áttumaður fyr­ir mann­rétt­ind­um. Hún hafði rann­sakað spill­ingu stjórn­valda í Tétsn­íu og var rænt er hún var stödd í höfuðborg­inni Grosní. 

Stan­islav Mar­kelov og An­astasia Baburova

19. janú­ar árið 2009 voru mann­rétt­inda­lög­fræðing­ur­inn Stan­islav Mar­kelov, 34 ára, og blaðamaður­inn An­astasia Baburova, 25 ára, skot­in á götu úti í Moskvu eft­ir að hafa komið fram á blaðamanna­fundi í borg­inni.

Bor­is Berezov­sky

Auðjöf­ur­inn Bor­is Berezov­sky, 67 ára, fannst lát­inn á baðher­bergi heim­il­is síns í London í mars 2013. Berezov­sky var eitt sinn mjög áhrifa­mik­ill í rúss­nesk­um stjórn­mál­um en vald hans tók að rýrna þegar Pútín tók um stjórntaum­ana. Enn er ekki fylli­lega ljóst hvers vegna Berezov­sky dó. Dán­ar­or­sök­in var köfn­un enda fannst hann með band um háls­inn en dán­ar­dóm­stjóri sagði sönn­un­ar­gögn­in ekki næg til að full­yrða að um sjálfs­morð hefði verið að ræða og hef­ur það orðið til þess að vanga­velt­ur um morð hafa vaknað.

Margir hafa minnst Boris Nemtsov á götum úti í Rússlandi.
Marg­ir hafa minnst Bor­is Nemt­sov á göt­um úti í Rússlandi. AFP
Alexander Litvinenko á sjúkrahúsinu eftir að áhrif eitrunarinnar fóru að …
Al­ex­and­er Lit­vin­en­ko á sjúkra­hús­inu eft­ir að áhrif eitr­un­ar­inn­ar fóru að koma í ljós. mbl.is
Blaðamaðurinn Anna Politkovskaya.
Blaðamaður­inn Anna Polit­kovskaya. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert