Stjúpbróðirinn ákærður fyrir morð

Becky Watts.
Becky Watts.

Nathan Matthews hefur verið ákærður fyrir að myrða stjúpsystur sína Becky Watts. Kærasta hans, Shauna Hoare, hefur verið ákærð fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Matthews, 28 ára, og Hoare, 21 árs, eru í haldi lögreglu en verða leidd fyrir dómara á morgun.

Parið var handtekið síðastliðna helgi, á meðan að leit að hinni 16 ára gömlu Becky stóð yfir í Bristol. Þau voru yfirheyrð að nýju í gær, í kjölfar þess að líkamspartar fundust í húsi skammt frá heimili stúlkunnar.

Samkvæmt Guardian var Hoare flutt á sjúkrahús í gærkvöldi þar sem hún hitti lækni, en að skoðun lokinni var hún aftur sett í varðhald.

Matthews er sendill og á Facebook-síðu hans kemur fram að hann hafi þjónaði í breska hernum. Hoare auglýsti eftir upplýsingum um ferðir Becky áður en hún var handtekin. Parið á ungt barn.

Fjórir menn og kona eru einnig í haldi lögreglu, grunuð um að hafa aðstoðað gerandann í málinu.

Saksóknarinn Rachael Scott segir að næg sönnunargögn liggi fyrir til að ákæra Matthews fyrir morðið á Watts. Hvorki hefur verið upplýst um ástæður né kringumstæður morðsins.

Bróðir Becky, Dan Galsworthy 20 ára, ritaði skilaboð á Facebook-síðu sína þar sem hann segir m.a. að hann hafi ekki treyst sér til að svara skilaboðum þar sem hann eigi engin orð. Hann segir atburðinn hafa skilið eftir tómarúm í hjarta sínu.

Meðal annarra sem hafa tjáð sig um morðið á stúlkunni er föðursystir hennar Sarah Bloom og biskup Bristol, Mike Hill. „Sem faðir fjögurra dætra hefur þessi glæpur haft djúpstæð áhrif á mig,“ sagði hann meðal annars.

Efnt hefur verið til söfnunar til að greiða fyrir útför Becky.

Nánar má lesa um málið hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert