Sekur um skipulagningu hryðjuverka

Skrifstofur Jyllands-Posten og Politiken í Kaupmannahöfn.
Skrifstofur Jyllands-Posten og Politiken í Kaupmannahöfn. AFP

Pakistani, Abid Naseer, 28 ára, var í gær dæmdur sekur um skipulagningu hryðjuverkaárása á danska dagblaðið Jylland-Posten, og fleiri skotmörk í Bretlandi og Bandaríkjunum. 

Dómari mun kveða upp refsinguna yfir Naseer síðar en dómurinn var kveðinn upp í New York í gær. Fastlega er gert ráð fyrir að hann verði dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Naseer var framseldur til Bandaríkjanna árið 2013 frá Bretlandi en hann ásamt fleiri liðsmönnum al-Qaeda höfðu skipulagt árás á skrifstofu Jyllands-Posten í Kaupmannahöfn, verslunarmiðstöð í Manchester og neðanjarðarlestarkerfi New York borgar. Þrír hafa þegar verið dæmdir fyrir aðild að málinu en saksóknarar segja að með árásunum hafi átt að senda Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra skýr skilaboð.
 
Naseer var handtekinn í Bretlandi í apríl 2009 ásamt fleirum meintum hryðjuverkamönnum. Við leit sem gerð var á netkaffihúsi sem hann stundaði fundust skilaboð í tölvum sem hann hafði ritað við aðra al-Qaeda liða um hvernig skyldi staðið að verki.
Mikill viðbúnaður hefur verið við skrifstofur Jyllands-Posten allt frá árásunum á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hedbo í byrjun janúar í París.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert