Stjúpbróðir hinnar sextán ára gömlu stúlku, Becky Watts, mætti fyrir dómara í dag en hann hefur verið ákærður fyrir að myrða hana. Becky var sextán ára og fannst lík hennar brytjað niður í húsi í Bristol í Bretlandi. Hennar hafði þá verið saknað í nokkra daga.
Nathan Matthews er 28 ára gamall. Kærasta hans, Shauna Hoare sem er 21 árs, hefur einnig verið handtekin og ákærð fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Þau verða bæði í gæsluvarðhaldi til að minnsta kosti 2. apríl.
Becky sást síðast á lífi á heimili sínu þann 19. febrúar. Hún yfirgaf heimilið án þess að segja nokkrum frá því og hafði meðferðis símann sinn og spjaldtölvu.
Fjórir karlmenn og ein kona, öll á þrítugsaldri, hafa verið handtekin vegna gruns um aðild að málinu.
Frændi Beckyar las í dag yfirlýsingu frá fjölskyldunni á blaðamannafundi. Hann sagði fjölskylduna í áfalli og að stúlkan hafi verið tekin frá þeim á afar ómanneskjulegan og grimmilegan hátt. „Það er erfitt fyrir okkur að sjá ljós í myrkrinu. En við vitum að það er þarna,“ sagði m.a. í yfirlýsingu fjölskyldunnar.
Frétt mbl.is: Stjúpbróðirinn ákærður fyrir morð